Bandaríska flugfélagið United Airlines hefur fest kaup á fimmtíu Airbus-þotum til að fylla skarð eldri Boeing-þota félagsins.
United Airlines greindi frá þessu í morgun og er þetta nýjasta áfallið fyrir bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing sem hefur átt sérstaklega erfitt ár eftir að 737 MAX-vélar þess voru kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa.
Nýju Airbus-þoturnar eru langdrægar og af gerðinni Airbus A321XLR og er þeim ætlað að koma í stað 53 Boeing 757-200 véla flugfélagsins. Er talið að Airbus-vélarnar eyði um 30 prósent minna af eldsneyti en gömlu Boeing-vélarnar.
United Airlines bætist með þessu í hóp bandarískra flugfélaga sem hafa að undanförnu frekar kosið að leita til evrópska flugvélaframleiðandans Airbus í stað Boeing.
Nýju Airbus-vélar United munu bætast í flotann árið 2024. Áætlað er að samningur United Airlines og Airbus hljóði upp á 7,1 milljarða Bandaríkjadala, ef frá er talinn mögulegur afsláttur.
United Airlines snýr baki við Boeing og kaupir fimmtíu Airbus-þotur
