Skoðun

Mitt álit á dönskukennslu í grunnskólum á Íslandi

Óskar Guðnason skrifar
Ljóst er að það á að fórna íslenskunni fyrir dönskuna áfram. Gamla nýlenduveldið Danmörk er búið að borga hluta af dönskunáminu á Íslandi fram í tímann og íslenskir unglingar eru skyldaðir til þess að læra dönsku, þrjá tíma á viku. Það er svo gott fyrir samskiptin við Norðurlönd þar sem flestir tala reyndar ensku við Íslendinga! 

Í dönskum framhaldsskólum og æðri menntastofnunum í Danmörku og líka annars staðar á Norðurlöndum er allt kennt á ensku fyrir útlendinga þ.á.m. Íslendinga - vegna Evrópusambandsins. En samt skal hafa þrjá tíma á viku í dönsku í unglingaskólum á Íslandi þó svo að stór hluti af unglingunum skilji ekki íslensku og geti því ekki skilið almennilega og lært önnur fög sem að kennd eru á íslensku í skólunum á Íslandi. 

Og nú á að auka álagið á þau, án þess að minnst sé á að minnka dönskukennslu eða gera hana að valfagi.

Og ekki er tvítyngdum börnum eða foreldrum þeirra bent á að börnin þeirra séu ekki skyldug til þess að læra dönsku - eða ensku. Nei skólarnir gera það ekki samkvæmt skipun að ofan virðist vera. Er það af því að skólunum ber skylda til að kenna börnum á þeirra móðurmáli - t.d. pólsku, tælensku o.s.frv. En hvar er það gert? 

Nei, það er ekki minnst á það við skólasetningu á hausti. En lögð er rík áhersla á dönskukúgunina áfram. Hún sé svo nauðsynleg.

Hve mörg börn ætli séu inni á dönsku efni í símunum sínum dags daglega? Dönskunámið er eingöngu til þess að auka álagið á íslenska grunnskólanemendur - álag sem að nú þegar er orðið mjög mikið. Til dæmis vegna áhugamála utan skóla. En haldið skal í úrelta gamla hugmynd um tengsl Norðurlandanna og íslenskum ungmennum skal fórnað fyrir dönsku konungshirðina.

Höfundur er fyrrverandi grunnskólakennari.




Skoðun

Sjá meira


×