Teitur Örn Einarsson skoraði fimm mörk fyrir Kristianstad sem bar sigurorð af Ystad, 25-20, í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Ólafur Guðmundsson, sem skrifaði undir nýjan samning við Kristianstad í dag, lék ekki með liðinu í kvöld. Kristianstad, sem hefur unnið fjóra leiki í röð, er í 4. sæti deildarinnar.
Barcelona sigraði Cuenca, 28-39, í spænsku úrvalsdeildinni. Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir Börsunga sem eru með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar.
Rhein-Neckar Löwen tapaði fyrir Hannover-Burgdorf, 30-31, í 8-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar. Kristján Andrésson er þjálfari Löwen.
Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Ljónin frá Mannheim.
Sigvaldi Guðjónsson skoraði tvö mörk fyrir Elverum sem rústaði FyllingenBergen, 43-28, í norsku úrvalsdeildinni.
Elverum er í 2. sæti deildarinnar með 16 stig, einu stigi á eftir toppliði Kolstad.
