Innlent

Hlemmur verði eftirsóttur bíllaus staður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úr tillögu Mandaworks út en hún er önnur þeirra sem notuð var til þróunarvinnu við gerð deiliskipulagsins.
Úr tillögu Mandaworks út en hún er önnur þeirra sem notuð var til þróunarvinnu við gerð deiliskipulagsins. Mynd/Mandaworks
Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Hlemmsvæðið. Svæðið mun taka stakkaskiptum á næstu árum verði framkvæmdir að veruleika. Borgarráð þarf að staðfesta deiliskipulagstillöguna til auglýsingar.

Í desember árið 2018 var efnt til svokallaðar hugmyndaleitar þar sem leitað var eftir hugmyndum um framtíðarútlit svæðisins. Alls bárust þrjár tillögur um framtíð svæðisins frá Arkitekastofunum Landslagi, DLD land design og Mandaworks.

Á vef Reyjavíkurborgar segir að tillögur arkitektastofanna Mandaworks og DLD hafi verið valdar til áframhaldandi þróunarvinnu við Hlemm fyrir endurhönnun svæðisins og gerð nýs deiliskipulags.

„Meginmarkmið breytinganna er að skapa gott vistvænt umhverfi á Hlemmi fyrir gangandi vegfarendur, stað sem mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir mannlíf og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

Svona lítur tillaga Mandaworks út en hún er önnur þeirra sem notuð var til þróunarvinnu við gerð deiliskipulagsins.Mynd/Mandaworks
Hlemmur eigi að vera kjörstaður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, eftirsóttur bíllaus staður. Þannig verði akandi umferð beint frá svæðinu, nýr hjólastígur verði lagður meðfram svæðinu og tengir Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni.

Þá verður Hlemmtorg rammað inn af smærri byggingum sem afmarki nýtt almenningsrými í austurhluta miðborgarinnar. Umbreyting norðurhluta Hlemmtorgs felist meðal annars í meiri gróðri en þar er nú og setbekkjum. Þess má geta að tillaga Mandaworks gerði ráð fyrir borðtennisbar og tillaga DLD gerði ráð fyrir gróðurhúsum á svæðinu.

Skoða má deiliskipulagstillöguna nánar hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×