Erlent

Fimm látnir og fleiri saknað eftir eldgosið á Nýja-Sjálandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á myndum úr vefmyndavél á vettvangi má sjá ferðamenn á göngustíg við gíginn rétt áður en eldgosið byrjaði.
Á myndum úr vefmyndavél á vettvangi má sjá ferðamenn á göngustíg við gíginn rétt áður en eldgosið byrjaði. Vísir/AP
Fimm eru nú staðfestir látnir eftir að eldgos hófst á eldfjallaeyjunni Whakaari, eða „Hvítu eyju“, á Nýja-Sjálandi í nótt. Þá er tíu manns enn saknað af eyjunni, að því er fram kom á blaðamannafundi nýsjálenskrar lögreglu í dag. Flestir sem voru á eyjunni þegar gosið hófst eru taldir hafa verið farþegar úr sama skemmtiferðaskipinu.

Sjá einnig: Manntjón eftir eldgos á vinsælli ferðamannaeyju



Gosið hófst um tvöleytið í dag að nýsjálenskum tíma, eða um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Þegar hefur tuttugu og þremur verið bjargað af eyjunni en hinir látnu eru á meðal þeirra.

Hinir átján voru fluttir slasaðir á sjúkrahús, margir með alvarleg brunasár. Á myndum úr vefmyndavél á vettvangi má sjá ferðamenn á göngustíg við gíginn rétt áður en eldgosið byrjaði. Slíka mynd má sjá efst í fréttinni.

Talið er að tæplega fimmtíu manns hafi verið á eyjunni þegar gosið hófst. Þar af voru yfir þrjátíu farþegar skemmtiferðarskipsins Ovation of the Seas á vegum Royal Caribbean Cruise Line. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að það harmi atburði dagsins og komi á framfæri samúðarkveðjum til allra hlutaðeigandi.

Fram kom á blaðamannafundi lögreglu að ekki hafi náðst samband við neinn á eyjunni. Þá sé unnið að því að bera kennsl á þá sem voru þar staddir þegar gosið hófst en um er að ræða bæði Nýsjálendinga og erlenda ferðamenn. Björgunarstarf gengur erfiðlega þar sem aðstæður á eyjunni eru metnar afar hættulegar.

Fjallið, sem er á eyju rétt norðan við stóru eyjar Nýja-Sjálands, er eitt af virkustu eldfjöllum landsins. Hvíta eyja er jafnframt vinsæll ferðamannastaður og þangað fara ferðamenn gjarnan í dagsferðir. Þá eru gos í fjallinu nokkuð tíð. Síðast gaus þar árið 2016 en engan sakaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×