Innlent

Segir Kristján hafa veitt óljós svör um hæfi sitt

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Sjávarútvegsráðherra var óljós í svörum um hæfi sitt vegna Samherjamálsins á fundi atvinnuveganefndar í dag. Þetta segir þingmaður Vinstri grænna.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra kom fyrir atvinnuveganefnd í dag til að svara spurningum nefndarmanna vegna Samherjamálsins og tengsla hans við fyrirtækið og fráfarandi forstjóra þess.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna óskaði eftir því að ráðherra kæmi fyrir nefndina.

„Mér fannst hann svara sumu ágætlega og í öðru var hann frekar óljós. Til að mynda varðandi hæfni hans. Mér finnst því miður enn þá óljóst hvar hans hæfni liggur,“ segir Rósa.

Aðspurð hvort möguleg afsögn ráðherra hafi verið rædd á fundinum segir hún svo vera.

„Þetta var náttúrlega lokaður fundur og við áttum í orðaskiptum og auðvitað komu upp viðlíka spurningar já, þær gerðu það.“

Kristján Þór segist ekki vera á þeim stað í dag að íhuga afsögn.

„Miðað við hvernig umræðan er og líka hversu smátt þetta samfélag er þá finnst mér fullkomlega eðlilegt að fólk spyrji, ég geri engar athugasemdir við það. Ég bið fólk hins vegar alltaf að íhuga það líka hvernig aðild minni að málum er háttað og ég hef ekki haft nein afskipti af þessum rekstri síðan ég fór út úr stjórninni.“


Tengdar fréttir

Samherjamálið og vantraust hefur áhrif á kjaraviðræður

Brátt hefjast kjaraviðræður á milli Sjómannasambandsins og SFS en núverandi kjarasamningar renna út um næstu mánaðamót. Formaður Sjómannasambandsins segir Samherjamálið og vantraust á milli sjómanna og útgerðar hafi áhrif á viðræðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×