Handbolti

Sá fram á að fá minni spiltíma hjá Leipzig innan tíðar

Hjörvar Ólafsson skrifar
Viggó er kominn til Wetzlar.
Viggó er kominn til Wetzlar. vísir/getty
Viggó Kristjánsson færði sig fyrr í þessari viku um set innan þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta karla. Viggó sem gekk til liðs við Leipzig í vor ákvað að fara til Wetzlar en hann samdi við félagið til næsta vors.

„Ég hafði verið í viðræðum við forráðamenn Leipzig og ég hafði hug á að vera þar áfram. Ég hef verið að spila þó nokkuð í upphafi keppnistímabilsins og naut mín bæði innan vallar og utan. Þeir sögðu mér hins vegar að þeir ætluðu að veðja á unga þýska skyttu sem er uppalin hjá félaginu,“ segir Viggó í samtali við Fréttablaðið um vistaskiptin.

„Það var því viðbúið að spiltími minn myndi minnka hjá Leipzig þar sem við vorum orðnir þrír í vinstri skyttustöðunni hjá liðinu. Wetzlar vantaði vinstri skyttu og spurðist fyrir um hvort möguleiki væri á að ég kæmi þangað. Mér fannst það fín lending að semja við þá fram á vorið og skoða svo stöðuna þegar þegar að kemur með framhaldið,“ segir hann enn fremur.

„Þetta er lið sem er um miðja þýsku efstu deildina og ég sé fram á að vera í stóru hlutverki hjá liðinu. Það var svo sem ekki skortur á spiltíma hjá Leipzig og ég átti til að mynda góðan leik á móti Melsung­en um síðustu helgi. Sú staða var hins vegar líklega að fara að breytast þannig að ég ákvað að breyta til,“ segir þessi flinka skytta.

„Það er töluvert öðruvísi að búa í Leipzig sem er stórborg en Wetzler sem er lítill og afar rólegur bær. Umgjörðin hjá Wetzlar er eins og best verður á kosið en bærinn er ekki eins stór og Leipzig. Það er gaman að hafa upplifað báðar hliðar af Þýskalandi og að hafa prufað að búa bæði í Austur- og Vestur-Þýskalandi. Við búum flestir í liðinu í sömu blokkinni sem er bara fínt upp á að koma mér inn í hópinn. Ég er að taka við af portúgalskri skyttu hérna sem náði ekki að finna sig,“ segir Viggó sem spilaði sína fyrstu landsleiki þegar íslenska liðið mætti Svíþjóð í vináttulandsleikjum fyrr í þessum mánuði.

„Mig langar auðvitað að fara með á Evrópumótið í janúar og vonandi náði ég að standa mig vel í leikjunum á móti Svíum og í næstu leikjum með Wetzlar þannig að ég verði í hópnum þegar þar að kemur. Möguleikinn á að komast í landsliðið hafði einhver áhrif á þessi félagaskipti en þó ekki úrslitaáhrif. Ég hlakka mjög til þess að sýna mig og sanna með Wetzlar og sjá hvort það skilar mér í EM-hópinn,“ segir Viggó en fyrsti leikur hans með Wetzlar verður á móti Minden á laugardaginn kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×