Körfubolti

Alawoya kominn til Vals og leikur með liðinu í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alawoya í leik með KR. Hann varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu 2017.
Alawoya í leik með KR. Hann varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu 2017. vísir/anton
Bandaríkjamaðurinn PJ Alawoya hefur skrifað undir samning við körfuknattleiksdeild Vals um að leika með liðinu út þetta tímabil í Domino's deild karla.

Alawoya er kominn með leikheimild og þreytir frumraun sína með liðinu þegar það sækir Grindavík heim í kvöld.

Valur er þriðja íslenska liðið sem Alawoya leikur með. Hann lék með KR seinni hluta tímabils 2016-17 og varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu. Seinni hluta síðasta tímabils lék Alawoya með Tindastóli.

„Við erum gríðarlega ánægð að fá PJ til okkar. Hann þekkir körfuboltann sem er spilaður hérna og það er mjög mikilvægt fyrir okkur. Hann gerði mjög vel hjá KR þar sem hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu. Hann var síðan mjög traustur með Tindastóli í vor,“ segir Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, í tilkynningu frá félaginu.

„Ísland, ég er kominn aftur! Ég er afar þakklátur Val og Gústa þjálfara fyrir að fá tækifæri til þess að gera það sem ég elska mest sem er að spila körfubolta. Valur er stórt félag og ég hlakka til tímabilsins!“ segir Alawyoa.

Hann fyllir skarð Chris Jones sem hætti eins og frægt var í hálfleik gegn Keflavík.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×