Innlent

Manni haldið í ein­angrun vegna gruns um í­trekað heimilis­of­beldi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá Landsrétti.
Frá Landsrétti. Fréttablaðið/Ernir
Landsréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands yfir karlmanni sem grunaður er að hafa beitt eiginkonu sína grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi á heimili þeirra fyrr í þessum mánuði. Maðurinn er talinn hafa beitt hana ofbeldi áður en atlagan er talin hafa staðið yfir í margar klukkustundir.

Þá kemur fram að konan hafi greint frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að hún hafi komið heim úr vinnu um hádegi en þá hafi maður hennar hótað henni lífláti, rifið af henni fötin, tekið af henni símann og beitt hana grófu kynferðislegu ofbeldi. Hann hafi svo látið hana þrífa eldhúsgólfið og baðherbergið án klæða og ítrekað hótað henni limlestingum og lífláti. Hún hafi ekki verið í ástandi til að gefa skýrslu þá um kvöldið en hafi daginn eftir gefið skýrslu á lögreglustöðinni.

Þá var maðurinn handtekinn daginn eftir á lögreglustöðinni og á honum framkvæmd líkamsrannsókn. Hann var svo vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Eftir bestu vitund lögreglu er maðurinn ekki með dvalarleyfi hér á landi en verði kærði sakfelldur fyrir brotin gæti hann átt yfir höfði sér allt að sextán ára fangelsisvist. Þá telur lögreglustjóri augljósa hættu á að kærði geti torveldað rannsókn málsins meðal annars með því að koma undan sönnunargögnum og hafa áhrif á vitni og brotaþola gangi hann laus á þessu stigi rannsóknarinnar.

Gæsluvarðhaldið var framlengt þar til kl. 16:00 á morgun, þriðjudaginn 26. nóvember og er hann í einangrunarvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×