Óðinn Þór Ríkharðsson var öflugur í sigri GOG á Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Óðinn skoraði sex mörk fyrir GOG í miklum markaleik, en lokatölur urðu 39-36 fyrir heimamenn í GOG.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina í marki GOG drjúgan hluta leiksins og varði níu bolta.
Gestirnir voru með forystuna lengi vel í fyrri hálfleik en það var jafnt með liðunum í hálfleik 16-16.
Nokkuð jafnt var með liðunum í seinni hálfleik, gestirnir með yfirhöndina lengi framan af en um miðjan seinni hálfleikinn fór hann að snúast GOG í vil, þó enn væri mikið jafnræði með liðunum.
Það var ekki fyrr en á síðustu mínútum leiksins að GOG byggði sér upp forystu og vann að lokum með þremur mörkum.

