Innlent

Gunnar Bragi sakar RÚV um æsifréttamennsku

Jakob Bjarnar skrifar
Hugur Gunnars Braga er nú hjá starfsfólki Samherja.
Hugur Gunnars Braga er nú hjá starfsfólki Samherja. Vísir/Vilhelm
Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, sakar Ríkisútvarpið um æsifréttamennsku í pistli sem finna má á leiðaraopinu Morgunblaðsins í dag. Hann segist nú hugsa til starfsmanna Samherja, „sem horfa nú á stríðsfyrirsagnir um fyrirtækið og stjórnendur þess.“

Hann segir að sem betur fer dæmi ekki fjölmiðlar né aðrir þeir sem hrópa nú á torgum, heldur dómsstólar. Gunnar Bragi talar af reynslu en sjálfur var hann mjög til umfjöllunar í fjölmiðlum, ásamt félögum sínum í Miðflokknum, í tengslum við hið mikla Klausturmál.

Pistil Gunnars Braga sem finna má á leiðaropinu Morgunblaðsins í dag.
„Ef til vill telja einhverjir fjölmiðlar það skyldu sína að matreiða fréttir í sem mestum æsifréttastíl ef heildarmyndin er ekki nógu hneykslanleg. Þá er ekki spáð í nett annað en áhorfstölur, lestur, flettingar og „klikk“ á vefsíðum,“ segir í pistlinum.

Miðflokkurinn hefur ekki haft sig í frammi í umræðunni um Samherjamálið en vitað er að formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur sínar hugmyndir um fjölmiðla eins og sýndi sig í frægri grein sem hann skrifaði á sínum tíma um loftárásir fjölmiðla. Hann hefur ekki tjáð sig enn um Samherjaskjölin.

Gunnar Bragi lýkur sínum pistli á að segja að fjölmiðlar verði að geta starfað án ríkisstyrkja. „Miðflokkurinn mun á næstunni kynna hugmynd að því hvernig efla megi einkarekna fjölmiðla án þess að binda þá á ríkisjötuna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×