Innlent

Spurði Katrínu um ummæli Bjarna um Samherjaskjölin í The Guardian

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, nýtti tækifærið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og innti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, eftir afstöðu hennar til ummæla sem höfð eru eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra í breska blaðinu The Guardian um Samherjaskjölin.

Í umræddri grein sem birtist á vef Guardian á föstudaginn er haft eftir Bjarna að spilltum stjórnvöldum í Namibíu sé hugsanlega um að kenna. „Veik ríkisstjórn, spillt ríkisstjórn í þessu landi. Sem virðist vera undirliggjandi vandamál sem við sjáum núna,“ er meðal annars haft eftir Bjarna í viðtalinu. „Ég óska eftir að heyra hver viðbrögð hæstvirts forsætisráðherra eru við þeim sjónarmiðum að meintar mútur séu fyrst og fremst Namibíumönnum sjálfum að kenna. Er hún sammála hæstvirtum fjármálaráðherra? Hefur forsætisráðherra ekki áhyggjur af því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar birtist umheiminum með þessi viðhorf?“ spurði Logi.

Katrín svaraði fyrirspurn Loga um ummæli Bjarna ekki beint, þrátt fyrir ítrekun Loga í síðari ræðu, heldur gaf svar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. „Sú sem hér stendur hefur talað eins skýrt og hægt er. Íslenskt atvinnulíf og íslensk fyrirtæki eigi að fylgja lögum, íslensk stjórnvöld muni ekki líða það ef fyrirtæki brjóta lög. Það fer í réttan farveg og það er ekkert umburðarlyndi af hálfu íslenskra stjórnvalda til lögbrota,“ sagði Katrín.

„Að minni hálfu er það algjörlega ljóst, og ég tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar í þessu máli, þá verða ekki liðinn lögbrot. Það verður farið yfir lagarammann,“ sagði Katrín. Logi var heldur óhress með þessi svör, eða öllu heldur skort á svörum, og gekk að sæti forsætisráðherra í þingsal og lýsti óánægju sinni með að hún hafi ekki svarað fyrirspurninni um ummæli Bjarna í erlendum miðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×