Erlent

Hettusóttarfaraldur í einu stærsta fangelsi heims

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
400 fangar hafa verið settir í einangrun í Karlafangelsinu.
400 fangar hafa verið settir í einangrun í Karlafangelsinu. Nordicphotos/Getty
Um fjögur hundruð fangar í karlafangelsi sýslumannsins í Los Angeles eru í einangrun vegna hettusóttarfaraldurs.

Fangi á þriðju hæð fangelsisins var skoðaður af lækni vegna flensueinkenna og bólginna kirtla í hálsi og þá kom í ljós að hann var með hettusótt. Síðan þá hafa 18 fangar smitast og var ákveðið að einangra bæði aðra og þriðju hæðina. Grunur leikur einnig á að þrír starfsmenn fangelsisins séu smitaðir.

„Við tökum einn dag í einu,“ sagði Jason Wolak sem hefur umsjón með einangruninni sem standa mun yfir til 21. nóvember. Alls hafa 350 fangar og 200 starfsmenn þegar verið bólusettir.

Karlafangelsið er stærsta fangelsi borgarinnar og eitt af þeim stærri í heiminum. Það var opnað árið 1963 og hýsir að jafnaði 4.300 fanga. Margar stjörnur hafa setið í fangelsinu um hríð, til dæmis O.J. Simpson, Sean Penn, Richard Pryor og Tommy Lee.

Hettusótt, sem er veirusýking, er mun alvarlegri í fullorðnum en börnum. Hún getur leitt af sér heilahimnubólgu, bólgur í brisi, hjarta og eistum og valdið varanlegu heyrnarleysi. Hettusótt smitast bæði með beinni snertingu og óbeinni, svo sem með því að taka upp hlut sem sýktur einstaklingur hefur haldið á.

Bóluefni var fundið upp árið 1948 og hefur tilfellum fækkað æ síðan. Reglulega koma upp hettusóttarfaraldrar í þróunarlöndunum þar sem minna er til af bóluefninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×