Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, átti að taka þátt í pallborði í málstofu um málefni innflytjenda og vinnumarkaðinn sem fór fram á Þjóðarspegli Háskóla Íslands á föstudag. Ásmundur forfallaðist en í hans stað mætti Gissur. Þorsteinn sagði að Gissur hefði haft í frammi sláandi ummæli um innflytjendur á Þjóðarspeglinum og þótti ástæða til að ræða málið við félagsmálaráðherra.
Spurði hvort stefnubreyting hefði orðið í málaflokknum
„Þar sem meðal annars kom fram að hann teldi ekki ástæðu til að fræða innflytjendur frekar um réttindi sín á vinnumarkaði, þar væri hver á eigin ábyrgð að afla sér upplýsinga þar að lútandi. Hann teldi ekki ástæðu til að styrkja sérstaklega íslenskukennslu því innflytjendur nenntu ekki að læra tungumálið. Hann tók það sérstaklega fram hvað það væri gott hvað það væri auðvelt að losna við fólk á íslenskum vinnumarkaði í þessu samhengi. Þetta gengur auðvitað þvert á framkvæmdaáætlun sem samþykkt var hér á Alþingi fyrir þremur árum síðan,“ sagði Þorsteinn undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir.Þorsteinn spurði hvort ráðuneytisstjórinn hefði verið að lýsa persónulegum skoðunum sínum eða hvort einhver stefnubreyting hefði orðið í málaflokknum; hvort þetta væri lýsandi fyrir stefnu stjórnvalda og ráðherra í málaflokknum.

Sjá nánar: Opið bréf til Ásmundar Einars Daðasonar
Segir ummælin lýsa gríðarlegum fordómum og áhugaleysi
Þorsteinn steig aftur í pontu og sagði að ummælin hefði honum þótt svo alvarleg að hann hefði fundið sig knúinn til að ræða við nokkra fundarmenn um þau.„Já, fólk sem sat þennan fund var mjög slegið yfir yfirlýsingum ráðuneytisstjóra ráðuneytis vinnumarkaðar og málefna innflytjenda af því þetta lýsir auðvitað gríðarlegum fordómum gagnvart stöðu innflytjenda á vinnumarkaði og gríðarlegu áhugaleysi ráðuneytis og ráðuneytisstjóra þessa ráðuneytis að sinna málefnum þessa hóps.“