Erlent

Gagnrýna „söguleg mistök“ Evrópusambandsins

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bandaríkjastjórn er ósátt við þá afstöðu Evrópusambandsins að opna ekki aðildarviðræður við Norður-Makedóníu og Albaníu. Búist var við því að aðildarviðræður yrðu opnaðar en leiðtogaráð ESB tók afstöðu gegn því á fundi sínum í október.

Leiðtogar Frakklands, Danmerkur og Hollands stóðu gegn því á leiðtogaráðsfundi októbermánaðar að hefja aðildarviðræður við ríkin tvö á Balkanskaga. Franski forsetinn Emmanuel Macron er sagður hafa farið fremst í flokki. Niðurstaðan olli vonbrigðum, bæði innan ríkjanna tveggja sem og innan sambandsins sjálfs.

The Guardian fjallaði á sínum tíma um fordæmingu ákvörðunarinnar. Haft var eftir Jean-Claude Juncker, fráfarandi forseta framkvæmdastjórnar ESB, að um söguleg mistök væri að ræða. Evrópusambandið þyrfti að standa við gefin loforð.

Norður-Makedónar bjuggust fastlega við því að leiðin yrði greið að Evrópusambandsaðild eftir að áratugalöng deila við Grikki um nafn ríkisins var leyst í febrúar. Grikkir höfðu staðið gegn aðild ríkisins að Evrópusambandinu en horfið frá þeirri andstöðu þegar Makedónar urðu Norður-Makedónar.

Matthew Palmer, bandarískur erindreki, tók í sama streng í dag, staddur á fundi með Aleksandar Vucic Serbíuforseta.

Að okkar mati var um söguleg mistök að ræða. Þau senda slæm skilaboð til svæðisins alls,“ sagði Palmer og bætti við að Bandaríkin vildu sjá aukna samvinnu ríkjanna á vestanverðum Balkanskaga við Evrópusambandið. Bandaríkjastjórn myndi reyna að sannfæra Evrópusambandið um að endurskoða málið fyrir næsta leiðtogaráðsfund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×