Viðskipti innlent

Keyptu í Marel fyrir 1.350 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Höfuðstöðvar Marels í Garðabæ.
Höfuðstöðvar Marels í Garðabæ. Vísir/epa
Erlendir fjárfestingarsjóðir, sem komu fyrst inn í hluthafahóp Marels í útboði í júní, bættu við sig um 2,3 milljónum hluta að nafnverði í félaginu í síðasta mánuði, eða fyrir um 1.350 milljónir króna miðað við núverandi gengi bréfa Marels.

Þetta má lesa út úr gögnum greiningarfyrirtækisins Morning­star sem heldur utan um eignarhluti erlendra eignastýringarfélaga sem eiga bréf í Marel í gegnum kauphöllina í Amsterdam. Tuttugu stærstu félögin á lista Morningstar áttu samanlagt um 92,6 milljónir hluta í Marel í lok október, borið saman við rúmlega 90 milljónir hluta mánuði áður, en það jafngildir um 13 prósenta eignarhlut.

Sjóðir í stýringu Threadneedle Management bættu hvað mest við sig í Marel á tímabilinu, eða um milljón hlutum. Þá fjárfestu sömuleiðis meðal annars sjóðir í rekstri félaga á borð við Baron Capital, Investec Asset Management, Miton Group og BlackRock í Marel í síðasta mánuði, en rétt er að taka fram að listi Morningstar gefur ekki tæmandi mynd af viðskiptum með bréf í félaginu í kauphöllinni í Amsterdam.

Frá skráningu á bréfum Marels erlendis hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um liðlega sextán prósent. Í kauphöllinni á Íslandi hefur gengið hækkað um 59 prósent frá áramótum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×