Lóðin við Háaleitisbraut 1 er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar, alls 5677 fermetrar að stærð og er heildarlóðarmatið tæplega 137 milljónir króna. Aðeins ein eign er á lóðinni, Valhöll, þar sem skrifstofur Sjálfstæðisflokksins auk tannlæknastofu og Heyrna- og Talmeinastöð Íslands er að finna.
Deiliskipulagstillagan felur í sér breytingu á notkun svæðisins þannig að bætt verði við tveimur nýjum byggingarreitum á lóðina. Næst Kringlumýrarbraut má reisa skrifstofuhús á fimm hæðum ásamt bílakjallara. Á horni Skipholts og Bolholts er heimilt að reisa fimm til sex hæða íbúðarhús með á bilinu 40 til 47 íbúðum, ásamt þjónustu- og verslunarrými.

Þar að auki er gerð krafa um þakgarða á fjórðu hæð íbúðarhússins og skulu þeir hafa grænt yfirbragð. Með því er átt við gras, runna, tré eða annan gróður sem fær að vaxa á þakinu. Jafnframt er opnað á möguleika á sameiginlega þakgarð fyrir íbúa hússins á fimmtu hæð.
Við Valhöll eru 88 bílastæði í dag en áætlað er að þau verði 125 eftir uppbygginguna. Ætlast er til þess að um 70 prósent þeirra verði neðanjarðar. Með framkvæmdunum mun hjólastæðum jafnframt fjölga úr reitnum. Þau eru engin í dag en verða 115 að framkvæmdum loknum.

Minjastofnun Íslands tók undir tillögu Borgarsögusafns, en gerði að öðru leyti ekki athugasemdir við fyrirhugaða uppbyggingu á reitnum. Engar fornleifar eru skráðar á skipulagsreitnum.
Samþykkta deiliskipulagstillagan kveður á um að íbúðarhúsið á reitnum verði „hannað í manneskjulegum skala og í takt við nærumhverfið.“ Hæð og lengd íbúðarhússins skal brotin upp, líklega til að skyggja ekki um of á Valhöll. Aukinheldur er gerð krafa um að fimmta hæð skrifstofubyggingarinnar verði inndregin.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs, greindi frá samþykktinni í dag og birti myndir af fyrirhugaðari uppbyggingu með færslu sinni á Twitter.
Þétting byggðar er alltaf góð. Líka í kringum Valhöll.
— Sigurborg Ósk Haraldsdóttir (@SigurborgOsk) November 6, 2019
47 nýjar íbúðir &
5 hæða ný skrifstofubygging
= Aukning um 7.500 fm2
88 bílastæði verða 125 bílastæði
0 hjólastæði verða 115pic.twitter.com/hWlobFmXRD