Skoðun

Það er til mjög sérstök tilfinning...

Bergþór H. Þórðarson skrifar
...Tilfinning sem er erfitt að útskýra, erfitt að koma í orð, eiginlega ómögulegt. Allavega þannig að önnur en þau sem sjálf hafa upplifað þessa sömu sérstök tilfinning skilji. Þessi tilfinning er einhver blanda af eftirvæntingu og eftirsjá, tilhlökkun og samviskubiti, gleði og sorg. Allt á sama tíma.

Þetta er tilfinningin sem fylgir því að láta undan lönguninni í skyndibita þegar manneskja er búin að vera skammta sér matarbirgðir á heimilinu í einhvern tíma í þeirri litlu von um að peningurinn sem eftir er endist út mánuðinn. Þegar það að láta undan lönguninni kostar stóran hluta af þeim litla afgang sem er eftir í veskinu. Verri útgáfa af þessari tilfinningu er þegar undanlátssemin tæmir veskið alveg. Verst er ef enginn er afgangurinn og tekið er einhvers konar lán, oft smálán, til að láta undan lönguninni.

Hér munu mörg stoppa við lesturinn og hvá. „Hvað meinar maðurinn? Engin heilvita manneskja fær sér skyndibita fyrir síðustu krónurnar í veskinu, hvað þá taka smálán fyrir því. Það væri hægt að fá mikið meira fyrir peninginn í næstu matvörubúð.” Sum eiga jafnvel eftir að hætta að lestri pistilsins á þessum stað. Vonandi halda flest samt áfram lestrinum.

Hér verður ekki eytt púðri í að réttlæta slíka undanlátssemi. Látum nægja að segja að stundum þegar það er mjög lítið eftir í veskinu skapast sérstakt hugarástand, hvað þá eftir að hafa neitað sér um almennilega næringu í einhvern tíma. Uppgjöf og hugsun sem má líklega best lýsa sem “fokk it, peningurinn mun hvort sem er ekki duga út mánuðinn og því er alveg eins gott að leyfa sér smá munað áður en hann klárast alveg”. Hugarástand sem, líkt og tilfinningin sem um ræðir, er erfitt að útskýra þannig að önnur en þau sem hafa upplifað skilji.

Eftirköstin eru önnur sérstök tilfinning

Eftir að hafa borðað skyndibitann sem kostaði síðustu krónurnar í veskinu kemur önnur sérstök tilfinning. Eins og áður þá er erfitt eða ómögulegt að koma þessari tilfinningu í orð. Hún er þó um margt frábrugðin þeirri fyrri. Í þetta skiptið er tilfinningin blanda af seddu, vissulega, en líka sterkari eftirsjá og samviskubiti en áður. Vonbrigði vegna skorts á sjálfsstjórn kemur sterk inn í tilfinningablönduna.

Á ensku er oft talað um “buyers remorse” sem tilfinningu eftir hvatvís kaup eða þar sem varan eða þjónustan sem keypt var stóðst ekki væntingar. Það mætti líklega þýða þetta hugtak sem “eftirkaupseftirsjá” eða “neyslusamviskubit”. Það er tilfinning sem margt fólk kannast við. Sú tilfinning kemst nærri þeim eftirköstum sem hér er lýst en nær þó einhvern veginn ekki að fanga það alveg.



Afleiðing pólitískra ákvarðanna

Þetta eru tilfinningar sem Bjarni Ben, Sigmundur Davíð, og líklega flestir aðrir þingmenn og ráðherrar hafa aldrei upplifað og munu líklega aldrei upplifa. Þó er það fólkið sem með ákvörðunum sínum í gegnum tíðina, pólitískum ákvörðunum, eiga einn stærsta þáttinn í að aðstæðurnar sem þurfa til að þessar sérstöku tilfinningar komi upp skapist. Til að gæta allrar sanngirni eru vafalaust einhverjir þingmenn sem kannast við þessa tilfinningu og sum þeirra eiga mögulega eftir að upplifa hana seinna meir. Ég óska þess þó engum.

Fólk í fátækt lendir nefnilega oft í aðstæðum sem opna á möguleikann á þessum tilfinningum. Það er ekki þar með sagt að allt fólk í fátækt upplifi þessa tilfinningu í lok hvers mánaðar. Reynslan og skynsemin sem henni fylgir hefur kennt fólki að láta ekki undan lönguninni því bæði eru þær tilfinningar sem reynt er að lýsa hér að ofan óþægilegar og við vitum hverjar afleiðingarnar eru. Það kemur samt fyrir að látið er undan, sérstaklega ef fólk hefur ekki reynsluna eða það er langt um liðið síðan þessar aðstæður sköpuðust síðast. Við erum jú bara mannleg með öllum þeim breyskleikum sem því fylgja.

Eftir situr að fátækt er mannanna verk og er afleiðing pólitískra ákvarðanna. Stjórnvöld biðja fólk í fátækt endalaust að bíða eftir réttlætinu þrátt fyrir að sitjandi forsætisráðherra telji þá bón ekki boðlega. Ég veit ekki með ykkur en ég er þreyttur á biðinni.


Tengdar fréttir

„Lánið fer ekkert þótt hún sé farin“

Á meðal þeirra 70 þúsund umsókna um leiðréttingu verðtryggðra lána eru handhafar lána á fasteignum sem eru nú dánarbú. Dæmi eru um að eigandi íbúðar hafi sótt um leiðréttingu en fallið svo frá og þar með rétturinn til að leiðrétta lánið..




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×