Erlent

Mikil fjölgun dauðsfalla heimilislausra

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Heimilislaus maður á götum Parísar­borgar.
Heimilislaus maður á götum Parísar­borgar. Nordicphotos/Getty
612 heimilislausir Frakkar létust árið 2018 samkvæmt góðgerðarsamtökunum Morts de la Ruse, sem skrásett hafa dauðsföllin á undanförnum árum. Árið 2017 létust 511 og er þetta mesta fjölgun sem mælst hefur á milli ára. Hér er einungis um staðfest tilvik að ræða en heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi telja að tölurnar séu mun hærri.

„Að eiga heimili er lífsnauðsynlegt,“ segir í tilkynningu samtakanna. „Við sjáum glögglega hvaða áhrif það hefur á fólk að búa á götunni, bæði andlega og líkamlega. Þegar fólk hefur búið lengi á götunni verður erfitt eða jafnvel ómögulegt að aðlagast venjulegu heimilishaldi að nýju.“

Samtökin hafa greint þessar tölur enn frekar. Um 30 prósent heimilislausra Frakka þjást af alkóhólisma eða fíkn og stór hluti þeirra af öðrum veikindum eða fötlunum. Sjálfsvígstíðni er einnig mun hærri en hjá öðrum.

Lífslíkur heimilislausra karla eru aðeins tæp 49 ár, á meðan heildarmeðaltalið í Frakklandi eru 82 ár. Karlar eru mikill meirihluti heimilislausra, 90 prósent. Á síðasta ári létust 13 heimilislaus börn. 50 prósent heimilislausra eru innflytjendur og 50 prósent deyja þegar annað fólk er nálægt en skiptir sér ekki af.

Eitt af kosningaloforðum Emmanuel Macron fyrir forsetakosningarnar árið 2017 var að allir Frakkar fengju þak yfir höfuðið. Það hefur ekki enn gengið eftir en Morts de la Ruse beita sér fyrir að öll úrræði verði nýtt, bæði neyðarskýli, skammtímahúsnæði og úrræði til lengri tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×