Innlent

Níu læknar hafa sagt upp á Reykjalundi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Reykjalundar.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Reykjalundar. Vísir/Sigurjón
Níu læknar hafa nú sagt upp störfum á Reykjalundi síðan í haust. Þrír læknar hafa ekki sagt upp störfum. Þetta staðfestir Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri Reykjalundar í samtali við Vísi. RÚV greindi fyrst frá.

Mikil ólga hefur verið á Reykjalundi síðan stjórn SÍBS kynnti nýtt skipurit í sumar og sagði í kjölfarið fyrrverandi forstjóra upp störfum. Læknar stofnunarinnar hafa síðustu vikur skilað inn uppsagnarbréfum, síðast í gær þegar sá níundi sagði upp. Af læknunum níu eru fimm yfirlæknar en hinir fjórir eru sérfræðilæknar. Þeir hyggjast vinna uppsagnarfrest sinn.

Þannig eru þrír læknar, auk framkvæmdastjóra lækninga sem tók við eftir að forvera hans var sagt upp nú í október, eftir á stofnuninni. Þá var einn læknir rekinn. RÚV greinir jafnframt frá því að einn læknir til viðbótar vinni í dag sinn síðasta vinnudag á Reykjalundi í dag en um hafi verið að ræða tímabundna ráðningu og starfslok því alltaf legið fyrir.

Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri Reykjalundar segist ekki geta tjáð sig um stöðuna, utan þess að stjórnendur séu „í stöðugri vinnu“ við að reyna að leysa vandann sem nú sé kominn upp.

Níu sálfræðingar starfa á Reykjalundi en þeir greindu frá því í tilkynningu í vikunni að þeir íhuguðu allir uppsögn í ljósi stöðunnar. Guðbjörg segir að uppsagnirnar nú séu aðeins í hópi lækna, enginn starfsmaður á öðru sviði hafi sagt upp.

Ekki hefur náðst í Herdísi Gunnarsdóttur forstjóra Reykjalundar vegna málsins í dag. Hún sagði í samtali við Vísi fyrr í vikunni, innt eftir viðbrögðum við uppsögnum tveggja yfirlækna, að staðan væri áhyggjuefni en þjónustan væri þó óskert. Stjórn SÍBS samþykkti á fundi sínum í gær að skipuð verði þriggja manna starfsstjórn yfir rekstur Reykjalundar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×