Innlent

Ummæli sæma ekki formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands

Björn Þorfinnsson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. vísir/vilhelm
„Það er hryggilegt og ekki sæmandi formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands að lýsa afstöðu sinni með þessum hætti,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um viðbrögð Gylfa Magnússonar, dósents við Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, við nýju frumvarpi sem á að einfalda sam­keppnis­löggjöf landsins verulega.

Gagnrýndi Gylfi frumvarpið harðlega og sagði meðal annars að „blautir draumar fákeppnismógúla væru að rætast“.



Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til að áfrýja niðurstöðum áfrýjunarnefndar til dómstóla. Þá er einnig ráðgert að afnema heimild stofnunarinnar til íhlutunar í starfsemi fyrirtækja sem ekki hafa gerst brotleg við samkeppnislög. Að sögn Gylfa eru þessi baráttumál ekki ný af nálinni hjá hagsmunaaðilum. „Hugmyndir í þessa veru hafa oft verið viðraðar áður en ekki fengið brautargengi vegna harðrar andstöðu. Nú sjá þeir hins vegar greinilega lag til að knýja þetta fram,“ sagði Gylfi.

„Formaður bankaráðs verður að gæta þess að vegna stöðu hans er á hann hlustað, orð hans metin bæði hér á landi og erlendis. Það stendur upp á hann að skýra hvernig þetta samræmist stöðu hans og ég vænti þess að gengið verði eftir þeim skýringum,“ segir Halldór.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Kristján Þór Júlíusson héldu blaðamannafund í gær þar sem tillögur þeirra um einföldun á regluverki voru lagðar fram.


Tengdar fréttir

Eru fyrst og fremst að taka til

Ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boða aðgerðir til að einfalda regluverk. Binda vonir við að önnur ráðuneyti og sveitarfélög grípi til sömu aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×