Innlent

Tveir stjórnarmenn mótmæltu brottrekstri forstjóra Reykjalundar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Tveir stjórnarmenn í stjórn SÍBS bókuðu mótmæli við brottvikningu forstjóra Reykjalundar þegar málið var lagt fyrir stjórnina. Fyrrverandi formaður samtakanna og nefndarmaður í uppstillingarnefnd harmar uppsagnir stjórnenda. Talsmaður fagráðs Reykjalundar segir allt starfsfólk íhuga stöðu sína.

Mikil ólga hefur verið meðal starfsfólks Reykjalundar eftir að stjórn SÍBS sagði upp forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga fyrir nokkrum vikum. Dagný Erna Jónsdóttir, sem var formaður SÍBS um nokkurra ára bil og situr nú í uppstillingarnefnd Samtakanna, er afar ósátt með uppsagnirnar.  

„Þegar ég frétti þetta var ég gjörsamlega niðurbrotin, þetta hafði ofboðsleg áhrif á mig og ég mun kalla saman fund ef ég get,“ segir Dagný.

„Þetta kom mér mjög, mjög á óvart. Þetta er bara alveg skelfilegt. Enda veit ég að það var ekki einhugur um þetta í stjórninni.“

Þórunn Hanna Halldórsdóttir, fulltrúi í fagráði Reykjalundar.Vísir/Sigurjón
Sjö manns sitja í stjórn SÍBS. Meðal þeirra er Pétur J. Jónsson sálfræðingur. Hann sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði varað við brottvikningu forstjóra Reykjalundar á stjórnarfundi á sínum tíma og látið bóka mótmæli við henni ásamt Frímanni Sigurnýassyni. Menn væru ekki búnir að bíta úr nálinni með þetta og það hefði komið á daginn. 

Það eru sex læknar ýmist á förum eða hafa sagt upp og afgangurinn, eða sjö læknar, eru að íhuga stöðu sína. Það sama á við um aðrar stéttir.

„Það eru allir að íhuga sína stöðu,“ segir Þórunn Hanna Halldórsdóttir, fulltrúi í fagráði Reykjalundar.

Hún segir að það myndi leysa mikið ef það kæmi manneskja með endurhæfingarmenntun í framkvæmdastjórn Reykjalundar og meira samráð væri haft við starfsfólk um stórar ákvarðanir. Þá telur hún að núverandi stjórn eigi að víkja.

„Ég tel að stjórn SÍBS eins og hún er skipuð núna sé hluti af vandanum. Þetta hefur verið klúður frá upphafi til enda og maður hefur séð á mörgum stöðum hvernig hægt hefði verið að leysa stöðuna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×