Eyja fjárfestingafélag, sem er í eigu hjónanna Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, var með 3 milljarða króna eigið fé í lok síðasta árs. Félagið hagnaðist um tæplega 80 milljónir króna.
Stærsta eign félagsins er dótturfélagið Eyja fjárfestingafélag II sem hélt utan um 28 prósenta hlut þeirra hjóna í Pizza-Pizza, rekstrarfélagi Domino's á Íslandi. Dótturfélagið hagnaðist um 1,6 milljarða króna á síðasta ári þegar breska félagið Domino's Pizza Group nýtti kauprétt á 44 prósenta hlut Íslendinga í pitsukeðjunni í lok árs 2017.
Eyja fjárfestingafélag heldur utan um ýmsar fjárfestingar í veitingarekstri. Þar á meðal eru veitingastaðirnir Café Paris og Snaps, veitingakeðjurnar Joe & the juice og Gló, og bakaríin Brauð og co.
Birgir sagði í síðustu viku í samtali við Markaðinn að veitingarekstur hefði verið erfiður síðustu misseri. Unnið væri að því að styrkja stöðu veitingastaðanna með því að lækka skuldir.
