Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað samráðsnefnd um fiskeldi. Nefndin mun meðal annars hafa það hlutverk að meta forsendur og úrvinnslu gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Haft er eftir Kristjáni Þór að ákvörðun um stofnun nefndarinnar byggi á þeirri hugsun að stuðla verði að „nauðsynlegu samráði um uppbyggingu greinarinnar.“ Þannig eigi vísindin, hagsmunaaðilar og stjórnvöld sameiginlegan vettvang til skoðanaskipta um þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er í fiskeldi.
Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri er formaður nefndarinnar en í henni sitja einnig Bjarni Jónsson, tilnefndur af umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Guðrún Sigurjónsdóttir, tilnefnd af Landssambandi veiðifélaga, Ragnar Jóhannsson, tilnefndur af Hafrannsóknarstofnun og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
„Með þessari nefnd erum við jafnframt að fylgja eftir þeirri ráðgjöf okkar helstu nágrannalanda, sem eru komin mun lengra en við Íslendingar í að byggja upp öflugt fiskeldi, að það sé lykilatriði að stuðla að náinni samvinnu þeirra lykilþátta sem koma að uppbyggingu greinarinnar,“ er meðal annars haft eftir Kristjáni Þór í tilkynningunni. „Ég tel augljóst að við getum látið þessa lykilþætti vinna betur saman og ég vind vonir við að samráðsnefndin sé mikilvægt skref í þá veru.“
Landsamband fiskeldisstöðva gekk til liðs við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi í desember í fyrra. Varamenn í nefndinni eru þau Unnur Brá Konráðsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Elías Blöndal Guðjónsson, Kristján Þórarinsson, Sólveig Rósa Ólafsdóttir og Karl Óttar Pétursson.
