Vala vakti athygli þegar hún kom fram í þáttunum Þær Tvær á Stöð 2 á sínum tíma og í framhaldinu af því fór hún af stað með þættina Venjulegt fólk en hún samdi handritið ásamt þeim Júlíönu Söru Gunnarsdóttur, Fannari Sveinssyni, Halldóri Halldórssyni og Glassriver framleiðir. Nú starfar hún í Borgarleikhúsinu og kemur fram í verkinu Sex í sveit.
Á yngri árum glímdi Vala við átröskun, kvíða og þunglyndi og hefur sú reynsla mótað hana sem manneskju.
„Ég byrja að veikjast í níunda bekk. Þá er maður einhvern veginn að skríða inn í kynþroska og það er ýmislegt sem breytist hjá manni þá. Eftir á að hyggja hugsa ég að þetta hafi verið mín leið til að ná stjórn á lífinu,“ segir Vala og heldur áfram.
„Það voru aðrar áskoranir í mínu lífi sem ég hafði enga stjórn á. Mín átröskun var þannig að þetta var ég að reyna stjórna einhverju. Ég stjórna ekki umhverfinu mínu en ég stjórna eigin líkama. Við þetta blandast hugmynd um fegurð, samkeppni og samskipti kynjanna um að vera flottur. Þetta var síðan ástand sem þróaðist og varð að ótrúlega miklum kvíða og stjórnsemi gagnvart mat og holdafari sem heltók stóran kafla af lífinu mínu. Ég var samt mjög fúnkerandi og naut alveg lífsins upp að miklu marki.“
„Mér fannst þetta ekki nógu mikil átröskun eins og hugmyndirnar sem ég hafði um átröskun. Ég fór ekki í svelti og var ekki rúmliggjandi út af þessu. Ég byrjaði að búa til reglur um mat fyrir sjálfan mig en svo þrengdist ramminn og ég borðaði ótrúlega lítið og bara ákveðin mat. Þetta varð í raun að þráhyggju. En sem betur far rankaði ég við mér og hugsaði að mér fyndist þetta ekki gaman.“
Í þættinum hér að ofan ræðir Vala einnig um æskuna, leikhúsið og helstu martröð leikara, hvort konur séu ekki eins fyndnar og karlar, hvort það sé erfiðara að leika grín eða drama, framtíðina og margt fleira.