Lífið

Rjómi glæpasagnahöfunda fagnaði Fjötrum Sólveigar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Fullt var út úr dyrum í Sjávarklasanum í útgáfuhófi bókarinnar Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur.
Fullt var út úr dyrum í Sjávarklasanum í útgáfuhófi bókarinnar Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur. Myndir/Salka
Sólveig Pálsdóttir rithöfundur og bæjarlistamaður Seltjarnarness fagnaði í vikunni útgáfu fimmtu bókar sinnar sem ber heitið Fjötrar. Gleðskapurinn fór fram í Sjávarklasanum og vel á annað hundruð manns lögðu leið sína út á Granda til að samfagna með höfundinum. Þeirra á meðal var rjóminn af glæpasagnahöfundum landsins en Yrsa Sigurðardóttir, Lilja Sigurðardóttir og Óskar Guðmundsson nældu sér öll í eintak í veislunni. 

Fjötrar segja frá konu sem finnst látin í klefa sínum í fangelsinu á Hólmsheiði. Guðgeir og félagar hans rannsaka málið sem reynist hafa ótal þræði og teygja anga sína víða, alla leið til stóra skjálftans um aldamótin þar sem ungur maður hvarf sporlaust. Lögreglan stendur frammi fyrir stórum spurningum og kynnist hversu langt fólk er tilbúið að ganga til að viðhalda ákveðinni mynd af sér út á við og hvers fjölskyldur eru megnugar til að vernda leyndarmál sín.

Sólveig fagnaði á dögunum sextugsafmæli sínu en Fjötrar er hennar fimmta bók.Aðsend mynd
Sólveig er leikkona og starfaði lengi við leiklist og kennslu í framhaldsskóla áður en hún sneri sér alfarið að ritstörfum. Fjötrar er fimmta bók Sólveigar en hún fagnaði sextugsafmælinu sínu á dögunum. Bækur Sólveigar hafa verið tilnefndar til Blóðdropans, þýddar á þýsku og sem stendur vinna bresk framleiðslufyrirtæki að gerð sjónvarpsþátta eftir síðustu bók hennar Refnum samkvæmt upplýsingum frá útgefanda. Sólveig var valin bæjarlistamaður Seltjarnarness fyrir árið 2019, fyrst rithöfunda.

„Ég verð að leyfa hugmyndunum að setjast í mér og þroskast,“ sagði Sólveig í viðtali að því tilefni.  

Myndir frá þessum viðburði má finna í myndaalbúminu hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×