Innlent

Mikið álag á bráða­mót­töku vegna hálku­slysa

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Fjöldi fólks hefur leitað á bráðamóttökuna í morgun vegna hálkuslysa.
Fjöldi fólks hefur leitað á bráðamóttökuna í morgun vegna hálkuslysa. vísir/vilhelm
25 einstaklingar hafa leitað á bráðamóttöku vegna hálkuslysa í morgun. Yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans segir mikið álag á deildinni og hefur auka mannskapur verið kallaður út.

Hálka sem myndaðist víða um landið í morgun virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu og hafa þó nokkur umferðaróhöpp orðið.

Að minnsta kosti fjögurra bíla árekstur varð nærri Smáralind í Kópavogi. Þá valt saltflutningabíll á fólksbíl á Flóttamannaleið milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar og  eldur upp í bíl sem valt við Tálkafjörð í morgun. Til allrar mildi urðu engin alvarleg slys í þessum óhöppum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði  fyrir hádegi fengið tilkynningar um sjö umferðarslys frá miðnætti. Jón Magnússon, yfirlæknir á Bráðamóttöku Landspítalans segir mikið álag hafa verið í morgun.

„Það hefur verið ansi mikið að gera hjá okkur í morgun vegna hálkuslysa. Um ellefu höfðu þegar tuttugu og fimm einstaklingar komið til okkar eftir að hafa lent í ýmsum óhöppum tengdum hálkunni,“ segir Jón.  

Einhver alvarleg slys?  

„Þetta eru beinbrot, mar og skurðir en engir lífshættulegir áverkar.“

Jón kveðst eiga von á því að það verði álag á bráðamóttökunni fram eftir degi.

„Það verður löng bið hjá okkur í dag fyrir þá sem leita til okkar vegna minniháttar veikinda og slysa vegna þessa. Ég vill fá að nota tækifærið og minna fólk á að hægt er að fá prýðisgóða þjónustu við minniháttar veikindum og minni slysum á heilsugæslustöðum og læknavakt,“ segir Jón.  

Hefur þetta haft mikil áhrif á starfsemi bráðamóttökunnar?

„Já, við höfum verið að kalla út auka starfsfólk til þess að sinna þessum sjúklingahópi og það hefur lengst biðin hjá okkur við minniháttar slysum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×