Innlent

Sára­sóttar­til­fellum fækkar en lekandi sækir í sig veðrið

Sylvía Hall skrifar
Einstaklingar eru hvattir til þess að sýna meiri aðgát í kynlífi og nota smokka.
Einstaklingar eru hvattir til þess að sýna meiri aðgát í kynlífi og nota smokka. Vísir/Getty
Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa 85 karlar og 10 konur greinst með lekanda og hefur tilfellum farið fjölgandi milli ára. Á sama tíma greindust 28 með sárasótt, þar af 25 karlar og þrjár konur. Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum.

Í fréttabréfinu kemur fram að dregið hefur úr aukningu sárasóttar yfir sumarmánuðina en tíðnin sé þó há. Tilfellin voru flest árið 2017 en það ár greindust 45 með sárasótt.

Farsóttarfréttir
Algengasti kynsjúkdómurinn er þó klamydía, en 1315 einstaklingar höfðu greinst með klamydíu fyrstu níu mánuði ársins. Tilfellin voru fleiri hjá konum en 713 konur greindust með klamydíu samanborið við 602 karlmenn.

Á sama tímabili greindust 26 einstaklingar með HIV-sýkingu, 21 karl og 5 konur og var einn íslenskur ríkisborgari í þeim hópi.

Í fréttabréfinu er ábyrgð einstaklinga áréttuð og fólk hvatt til þess að fækka rekkjunautum og nota smokka. 

„Ef árangur á að nást í baráttunni við kynsjúkdóma þá þurfa einstaklingar að sýna meiri aðgát í kynlífi (fækka rekkjunautum og nota smokka) og leita sem fyrst til læknis við grun um kynsjúkdóm svo hægt sé að hefja meðferð sem fyrst og stytta þannig þann tíma sem viðkomandi er smitandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×