Egill er gestur vikunnar í Einkalífinu en hann og Jökull Vilhjálmsson ákváðu að leggja allt undir og stofna fyrirtækið Suitup Reykjavik árið 2014.
Í þættinum fer Egill ítarlega yfir það hvað karlmenn þurfa að eiga í fataskápnum til þess að líta sem best út. Eins konar staðalbúnað í fataskáp karlmanna.
„Það er til staðlað svar við þessari spurningu sem er klisja en klisja út af því að hún virkar. Ég segi oft við kúnna sem eru að koma til mín og kaupa sín fyrstu jakkaföt að ef ég ætti bara ein jakkaföt þá væru það bara falleg dökkblá jakkaföt,“ segir Egill og heldur áfram.
„Ég ætti hvíta og ljósbláa skyrtu. Ég ætti brúna og svarta spariskó. Síðan ætti ég einn góðan frakka og einhvern munstraðan jakka. Ef þú átt þessar flíkur ert þú í toppmálum.“
Hér að neðan má sjá þáttinn í heild sinni en í honum ræðir Egill einnig um uppvaxtarárin, menntaskólaárin og hvernig hann vakti oft athygli fyrir klæðaburð sinn. Hann kom að stofnun á smáforriti en tæknigeirinn hentaði honum ekki og því sneri hann sér að fatnaði sem hefur gengið vel. Egill fer vel yfir það hvaða mistök karlmenn gera oft og tíðum í klæðaburði.