Innlent

Mikil vinna í vændum á þingi

Ari Brynjólfsson og Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. Vísir/vilhelm
Ráðist verður í umfangsmestu jarðgangagerð til þessa ef endurskoðun samgönguáætlunar verður að veruleika. Alls ræddi Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra um níu mismunandi jarðgangakosti á blaðamannafundi í Norræna húsinu í gær.

Fram kom á fundinum að til ársins 2034 yrði fé til nýframkvæmda aukið úr 55,7 milljörðum í 68 milljarða króna milli áætlana, sem er hækkun upp á 22,5 prósent. Þá verða einnig aukin framlög til viðhalds og þjónustu.

„Verður því hægt að ráðast í framkvæmdir fyrir 214 milljarða á næstu sjö árum, sem eru annars vegar nýjar framkvæmdir eða flýtiframkvæmdir sem eru að koma inn í pakkann,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er titringur innan ríkisstjórnarflokkanna vegna slælegrar kynningar Sigurðar Inga á málinu. Lásu bæði ráðherrar og stjórnarþingmenn um blaðamannafundinn í fjölmiðlum. Er endurskoðun áætlunarinnar nú inni í samráðsgátt stjórnvalda.

„Mál fara oft inn í samráðsgátt án þess að hafa verið rædd í ríkisstjórn enda oft um að ræða pólitíska sýn ráðherrans,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Mál taki mjög oft miklum breytingum frá því þau fara í samráð á vefnum þar til þau eru lögð fram á Alþingi, bæði á grundvelli athugasemda sem koma fram eftir opið samráð en einnig eftir umræðu í þingflokkum.

Þegar samgönguáætlun til næstu fimm ára var samþykkt á Alþingi í febrúar síðastliðnum var rætt um að langtímaáætlun í samgöngumálum yrði unnin í samráði. Kom það því flatt upp á stjórnarliða að lesa um fyrirhugaða kynningu ráðherra í fjölmiðlum og sjá svo endurskoðaða samgönguáætlun ráðherrans sem hvorki hefur verið rædd í ríkisstjórn né þingflokkum, í samráðsgáttinni.

Þegar kvartað var undan verklagi ráðherra var boðað til fundar með þingmönnum og helstu áherslur í áætluninni stuttlega kynntar. „Það ætti ekki að koma neinum á óvart að skoðanir um samgöngumál séu skiptar,“ segir Katrín aðspurð um ólgu í stjórnarflokkunum vegna málsins.

Jón Gunnarsson, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir þingmenn hafa fengið 45 mínútna kynningu á endurskoðuðu samgönguáætluninni daginn fyrir blaðamannafundinn. Því gæti hann lítið tjáð sig um innihaldið á þessum tímapunkti.

„Það gafst lítill tími þar til skoðanaskipta eða pælinga. Kynningin sem við fengum var í raun sú sama og var kynnt á fundinum,“ segir Jón. „Það er við margt að athuga þarna. Við eigum eftir að stilla þetta saman við samgönguáætlunina sem er í gildi og var samþykkt í febrúar.“

Margt þurfi að hafa í huga. „Það sem er nýtt í þessu er höfuðborgarpakkinn og hvernig hann spilar saman við þær gjaldtökuhugmyndir og flýtingu framkvæmda sem við vorum með á samgönguáætluninni úti á landi. Í þeirri áætlun var lagt til að fara hraðar og í meiri uppbyggingu en kemur fram í þessu varðandi uppbyggingu stofnbrauta á borð við Suðurlandsveginn, Reykjanesbrautina og Vesturlandsveginn,“ segir Jón. 

„Þarna er boðuð ein mesta jarðgangagerð í sögunni, þegar kemur að þessum göngum fyrir austan. Það er eitt sem þarf að skoða hvernig verður útfært. Svo er Sundabrautin eitt sem þarf að mínu mati að klára samhliða þessum höfuðborgarpakka.“

Býst hann við að málið komi fyrir nefndina um mánaðamót nóvember og desember. „Þetta verður mikil vinna í þinginu, að fara ofan í allar forsendur og skiptingu verkefna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×