Innlent

Þakklátur og stefnir á þing

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var kjörinn varaformaður VG í dag. Hér faðmar hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem var endurkjörin formaður.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var kjörinn varaformaður VG í dag. Hér faðmar hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem var endurkjörin formaður. Mynd/Aðsend
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var kjörinn varaformaður Vinstri grænna á landsfundi flokksins í dag. Hann segist gera fastlega ráð fyrir að bjóða sig fram til Alþingis í næstu kosningum. Atkvæðagreiðsla um stjórn flokksins átti að fara fram rafrænt en það gekk ekki vandræðalaust fyrir sig. Katrín Jakobsdóttir var ein í kjöri til formanns flokksins og Guðmundur Ingi Guðbrandsson gaf einn kost á sér til varaformanns.

Í fyrsta sinn átti kosning í stjórn flokksins að fara fram rafrænt en tæknin reyndist þó til vandræða. Eftir ítrekaðar tilraunir til að ljúka formannskosningu rafrænt var lagt til að atkvæðagreiðslan færi fram með handauppréttingu. Katrín var að endingu endurkjörinn formaður og Guðmundur Ingi varaformaður, bæði hlutu þau yfirburða kosningu. Þá var Ingibjörg Þórðardóttir kjörin ritari flokksins og Rúnar Gíslason er nýr gjaldkeri flokksins.

„Það er bara þakklæti fyrir þann stuðning sem verið er að sýna mér með þessu og líka þann stuðning sem umhverfis- og náttúruverndarmál eru að fá með þessu kjöri því að það er náttúrlega það sem ég stend fyrir fyrst og fremst,“ segir Guðmundur Ingi. Hann er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem ekki á sæti á Alþingi. „Ég geri fastlega ráð fyrir því að ég gefi kost á mér í næstu þingkosningum en hef svo sem ekkert tekið neina ákvörðun um hvar það eigi að vera, það er bara næsta skref,“ segir Guðmundur Ingi.

En hefur hann hug á að gera atlögu að formannsembættinu þegar fram líða stundir?

„Ég vil ekkert um það segja í dag. Ég held að þetta sé bara nóg í bili, að stíga þetta skref og svo sjáum við bara til hvað gerist í framtíðinni,“ svarar Guðmundur Ingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×