Viðskipti innlent

Kanna greiðslur sem runnu frá félagi í stýringu GAMMA

Hörður Ægisson skrifar
Eigið fé sjóðsins NOVUS í stýringu GAMMA þurrkaðist út á aðeins þremur mánuðum og nemur núna 42 milljónum.
Eigið fé sjóðsins NOVUS í stýringu GAMMA þurrkaðist út á aðeins þremur mánuðum og nemur núna 42 milljónum.
Nýir stjórnendur GAMMA, dótturfélags Kviku, vinna nú að því að taka saman og kanna greiðslur sem runnu frá Upphafi fasteignafélagi, sem er í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA:NOVUS, til félaga sem komu að framkvæmdaverkefnum sem Upphaf hefur unnið að, vegna gruns um að ekki hafi verið eðlilega að þeim staðið. Þar er meðal annars um að ræða greiðslur, samkvæmt heimildum Markaðarins, til félaga sem tengjast Pétri Hannessyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Upphafs, starfsmannaleigunnar Elju, sem er stýrt og að hluta í eigu Arnars Haukssonar, bróðurs Gísla Haukssonar, annars af stofnendum GAMMA, og til verkfræðistofunnar Ferils sem var eftirlitsaðili með fasteignaverkefnum Upphafs.

Í bréfi til sjóðsfélaga síðastliðinn mánudag voru sjóðsfélagar NOVUS upplýstir um að við endurmat á eignum og áætlunum sjóðsins þá væri eigið fé, sem þremur mánuðum áður var metið á um 3,9 milljarða, nú aðeins talið vera um 42 milljónir. Þá var gengi sjóðsins, sem fór hæst í 250 í árslok 2017, lækkað niður í 2 en það bráðabirgðagengi byggir á því að áform um viðbótarfjármögnun upp á einn milljarð króna, til að mæta lausafjárvanda Upphafs, gangi eftir. Samkvæmt endurskoðuðu ársuppgjöri fyrir 2018 var eigið fé NOVUS metið á 4,4 milljarða.

Á meðal einkafjárfesta sem voru hvað stærstir við fjármögnun NOVUS á sínum tíma var Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja, samkvæmt heimildum Markaðarins, en félag í hennar eigu fjárfesti í sjóðnum fyrir hundruð milljóna. Félag Guðbjargar var einnig umsvifamikið í hópi fjárfesta sem lánuðu samtals 2,7 milljarða króna til Upphafs í tengslum við skuldabréf til tveggja ára sem félagið gaf út í byrjun júní á þessu ári. Þá voru Stoðir, stærsta fjárfestingafélag landsins, einnig á meðal þátttakenda í skuldabréfaútboðinu og fjárfestu í því fyrir samtals 500 milljónir króna, samkvæmt heimildum. Í kynningu til fjárfesta vegna skuldabréfaútboðsins, sem Markaðurinn hefur undir höndum, var gert ráð fyrir að vextirnir, sem ættu að greiðast á tólf mánaða fresti, yrðu 11 prósent en þeir urðu hins vegar að lokum 15 prósent.

Hópur sjóðsfélaga, sem hefur núna tapað að stærstum hluta þeim fjármunum sem þeir lögðu NOVUS til, ræður nú ráðum sínum og áformar að leita sér lögfræðiaðstoðar til að kanna réttarstöðu sína um hvort refsiverð háttsemi hafi átt sér stað í tengslum við starfsemi sjóðsins. Stofnfé sjóðsins, sem var komið á fót 2013, nam um 2,5 milljörðum en á árinu 2017 voru greiddar 850 milljónir til baka til eigenda sjóðsins.

Í skýringum til sjóðsfélaga á endurmetnu virði NOVUS hefur komið fram að raunveruleg framvinda margra verkefna Upphafs, sem hefur staðið í framkvæmdum og sölu á yfir 400 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, hafi reynst ofmetin. Þá hefur kostnaður við framkvæmdir á árinu verið langt yfir áætlunum auk þess sem fyrri matsaðferðir tóku ekki að fullu tillit til fjármagnskostnaðar félagsins sem hækkaði verulega við útgáfu fyrrnefnds skuldabréfs að fjárhæð 2,7 milljarðar í júní.

Ljóst er að fjöldi einkafjárfesta sem komu að fjármögnun NOVUS nemur að lágmarki tugum og þurfa þeir nú að afskrifa eign sína að fullu. Auk Guðbjargar voru í þeim hópi, samkvæmt heimildum Markaðarins, meðal annars Þorsteinn Vilhelmsson, fjárfestir og fyrrverandi aðaleigandi Atorku og Samherja, Pétur Guðmundsson, eigandi verktakafyrirtækisins Eyktar, og Ingi Guðjónsson, fjárfestir og einn eigenda Lyfju.

Fjölmargir stofnanafjárfestar, tryggingafélög og lífeyrissjóðir, þurfa sömuleiðis að færa niður eignir hjá sér vegna NOVUS en TM hefur tilkynnt að tap félagsins nemi 300 milljónum króna og þá er tap Sjóvár um 155 milljónir.

Nýr sjóðsstjóri NOVUS er Máni Atlason, sem hefur samhliða verið ráðinn framkvæmdastjóri GAMMA, en hann starfaði áður á lögfræðisviði Kviku, en sá sem hefur leitt vinnu við endurmat á eignum GAMMA er Ásgeir Baldursson, fjárfestingastjóri hjá félaginu. Ingvi Hrafn Óskarsson, sem hefur verið sjóðstjóri NOVUS undanfarin ár, hefur hætt störfum.

Leiðrétt 17:27: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að Friðrik Steinn Kristjánsson, stofnandi Invent Farma, og Frosti Bergsson,  fyrrverandi aðaleigandi Opinna kerfa, hefðu verið á meðal þeirra sem komu að fjármögnun NOVUS. Það reyndist vera rangt. Beðist er velvirðingar á mistökunum.




Tengdar fréttir

Hætt við skráningu og fjárfestingarráð skipað

Ekkert verður af skráningu Almenna leigufélagsins á Aðalmarkað. Sjóðfélagar fá aðkomu með skipan fimm manna fjárfestingarráðs. Þóknun lækkuð um 75 prósent og til skoðunar að slíta sjóðnum og færa félagið beint til hluthafa.

Vill rannsókn vegna niðurfærslu gengis hjá sjóðum Gamma

Fagfjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, tapa tæpum þremur milljörðum króna vegna niðurfærslu á gengi tveggja sjóða í rekstri Gamma. Þá hefur þetta neikvæð áhrif á afkomu tryggingafélaga. Nýir stjórnendur Gamma segja ástæðuna meðal annars vera endurmat eigna og hærri byggingakostnað. Formaður VR vill að fram fari rannsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×