Erlent

Óvissa með framhaldið eftir eldflaugaskot

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Talið er að Norður-Kórea hafi skotið eldflaug úr einum kafbáta sinna í nótt. Það verður ekki annað sagt en að tímasetning skotsins sé einkennileg.

Þá sérstaklega í ljósi þess að viðræður við Bandaríkin um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans eiga að hefjast á ný á föstudaginn. Frost hefur verið í viðræðunum við Bandaríkin frá því fundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta og norðurkóreska einræðisherrans Kim Jong-un lauk án nokkurs konar samkomulags í febrúar.

Norður-Kóreumenn eru hins vegar bjartsýnir fyrir viðræður föstudagsins. Pyongyang Times, málgagn norðurkóreska ríkisins á ensku, birti frétt þess efnis í dag. Haft var eftir Choe Son Hui varautanríkisráðherra að búist sé við því að viðræðurnar muni nú komast á skrið.

Reiði í Japan

En eldflaugaskotið gæti breytt þessu. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans og bandamaður Trumps, fordæmdi skotið harðlega. „Við munum halda áfram að vinna með Bandaríkjunum og alþjóðasamfélaginu og gera okkar besta til þess að tryggja öryggi landsmanna,“ sagði Japaninn aukinheldur.

Yoshide Suga, talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar, sagði frá því að eldflaug Norður-Kóreumanna hafi lent í japanskri landhelgi en þetta er ellefta eldflaugatilraun einræðisríkisins á árinu.

Mögulega svar við nýjum þotum

Setja má skotið í samhengi við það að Suður-Kóreumenn fögnuðu í gær degi suðurkóreska hersins. Þar voru til sýnis nýkeyptar, bandarískar F-35 herþotur.

Norður-Kóreumenn gagnrýndu kaupin á sínum tíma og sögðu til þess fallin að auka á spennuna.


Tengdar fréttir

Skutu eldflaug úr kafbáti

Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem einræðisríkið gerir tilraunir með slíkar eldflaugar og að þessu sinni var það gert nokkrum dögum áður en viðræður við Bandaríkin um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun ríkisins hefjast að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×