Rætt var við Hörð um málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun og snerist umræðan að mestu leyti um Gamma: Novus sem er fasteignasjóður með um 400 til 500 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á sínu snærum.
Sagði Hörður að svo virtist sem allt utanumhald um þann sjóð og verkefni hans hafi verið í skötulíki.
„Það kemur í ljós á mánudaginn að eigið fé sjóðsins virðist hafa gufað upp; farið frá því að vera tæpir fjórir milljarðar að því er menn héldu um mitt árið í fjörutíu milljónir. Endurskoðaður ársreikningur um áramótin hafði sýnt 4,8 milljarða eiginfjárstöðu. Þannig að menn eru núna að reyna að átta sig á því hvernig getur þetta gerst,“ sagði Hörður en í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi benti Máni Atlason, nýr framkvæmdastjóri Gamma og nýr sjóðsstjóri Novus, á þrjú atriði í þessu samhengi.
„Vænt sala eigna Upphafs fasteignafélags sem var í rekstri hjá Gamma: Novus hefur verið endurmetið, kostnaðarhækkanir hafa verið vanmetnar og svo notum við aðra aðferð til að meta vaxtakostnað félagsins til framtíðr,“ sagði Máni.

Háir vextir í skuldabréfaútboði endurspegluðu mikla áhættu
Hörður rifjaði það upp í morgun að í vor hafði Upphaf fasteignafélag, sem er í eigu Gamma: Novus, sótt sér 2,7 milljarða í lánsfé á skuldabréfamarkaði.Sagði Hörður að það hefði reynst félaginu dálítið erfitt að sækja sér féð en það endurspeglaðist meðal annars í því að vaxtakjörin í útboðinu, sem áttu upphaflega að vera 11 prósent, enduðu í því að vera 15 prósent.
„Í tveggja ára skuldabréfaútboði er það á alla mælikvarða mjög hátt og endurspeglar að þarna er mikil áhætta,“ sagði Hörður og bætti við að þegar farið væri í slíkt útboð þyrfti að kynna fyrir fjárfestum viðamiklar fjárhagsupplýsingar sem væru lagðar á borðið.
Var hann þá spurður af þáttastjórnanda hvort að það þyrfti ekki allt að vera rétt.
„Jú, maður myndi halda það og stimplað í bak og fyrir. Og ekkert af því stenst virðist vera,“ sagði Hörður.
Hann sagði að nýir stjórnendur hjá sjóðnum myndu væntanlega velta við öllum steinum til að komst til botns í því hvað gerðist og meðal annars skoða hvort einhverjar óeðlilegar greiðslur hefðu runnið úr félaginu á síðustu mánuðum.
Aðspurður hvort einhver hefði gert mistök í málinu svaraði Hörður:
„Tvímælalaust. Það virðist augljóst að allt utanumhald um sjóðinn og verkefnin virðist hafa verið í skötulíki.“
Hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem rangt var farið með í upphafi að þeir sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu myndu tapa öllu sínu fé. Það er ekki rétt og hefur verið lagfært. Hið rétta er að sjóðsfélagar í Novus hafa tapað öllu sínu.