Á þriðja hundrað manns misstu vinnuna í vikunni og hafa álíka tölur ekki sést síðan í hruninu.
Icelandair tilkynnti á miðvikudag að 87 flugmönnum hefði verið sagt upp en 134 var sagt upp í fjármálageiranum í gær. Misstu því 221 starfið á einum sólarhring í vikunni en það sem af er ári hefur 809 manns verið sagt upp í hópuppsögnum.
„Það er langt síðan við höfum séð svona tölur. Við erum núna komin upp í jafn marga einstaklinga eins og allt árið í fyrra. Þetta hefur stigið mjög mikið,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Flestar hópuppsagnir á árinu eru í samgöngum og flutningum eða 453, 102 í fjármálastarfsemi, 64 í upplýsingastarfsemi, 37 í iðnaðarframleiðslu, 33 í veitingarekstri, 32 í byggingariðnaði, 30 í sérfræðistörfum, 21 í fiskvinnslu, 19 í heilbrigðisþjónustu og 18 í verslunarrekstri.

Unnur segir Vinnumálastofnun hafa góðan mannskap og ráðrúm til að takast á við þennan hóp í ár. Það kemur hins vegar í ljós á næsta ári hvort frekari fjárveitingar er þörf þegar margar uppsagnirnar koma til framkvæmda.

Skráð atvinnuleysi var 3,5 prósent í ágúst en Unnur er ekki bjartsýn á framhaldið.
„Ég á von á því að atvinnuleysistölur fari hækkandi. Ég held að botninum sé ekki náð í þessum samdrætti sem við erum stödd í núna. En vonandi gerist það sem fyrst á næsta ári. En ég býst við að þetta eigi eftir að aukast meira en orðið er.“