Erlent

Misstu samband við fyrsta indverska tunglfarið

Kjartan Kjartansson skrifar
Það var þungt yfir indversku leiðangursstjórnendunum eftir að sambandið rofnaði við Vikram í kvöld.
Það var þungt yfir indversku leiðangursstjórnendunum eftir að sambandið rofnaði við Vikram í kvöld. Vísir/EPA
Samband við indverska tunglendingarfarið Vikram örfáum mínútum áður en það átti að verða fyrsta indverska geimfarið til að lenda á tunglinu í kvöld. Ekki er ljóst hvort að aðeins sé um fjarskiptavandamál að ræða eða hvort geimfarið hafi brotlent á tunglinu.

Vikram er lendingarfar Chandrayaan 2-leiðangurs Indverja sem hófst 22. júlí. Geimfarið hafði gengið á braut um jörðina og tunglið en átti að lenda á suðurpól tunglsins þar sem ekkert geimfar hefur áður lent í kvöld, að sögn Washington Post.

K. Sivan, forstjóri indversku geimstofnunarinnar ISRO, sagði eftir að sambandið rofnaði að allt hefði verið með felldu með aðflug Vikram allt þar til geimfarið var um 2.100 metrum yfir yfirborði tunglsins. Þá hafi sambandið rofnað. Verkfræðingar vinna nú að því að greina gögnin sem bárust frá geimfarinu.

Space.com segir að gögn sem voru sýnd á meðan á lendingunni stóð hafi næst sýnt Vikram í rúmlega þrjú hundruð metra hæð yfir yfirborðinu. Geimfarið hafi hins vegar verið um einum kílómetra lárétt frá áætluðum lendingarstað þegar sambandið slitnaði.

Hefði lendingin gengið að óskum hefðu Indverjar aðeins orðið fjórða þjóðin til að lenda geimfari á tunglinu.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, reyndi að stappa stálinu í vísindamennina og landsmenn á Twitter eftir að sambandið við Vikram rofnaði.

„Þetta er augnablik til að vera hugrakkur og við verðum hugrökk!“ tísti Modi sem er væntanlegur til Íslands í næstu viku.

Um borð í Vikram var tungljeppinn Pragyan sem hefur að líkindum farist með lendingarfarinu. Brautarfarið Chandrayaan 2 er enn starfandi á braut um tunglið og getu haldið áfram athugunum þar næsta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×