Fótbolti

Gylfi þrítugur í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi í leiknum gegn Moldóvu í gær.
Gylfi í leiknum gegn Moldóvu í gær. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins, fagnar 30 ára afmæli sínu í dag.

Hafnfirðingurinn eyðir hluta afmælisdagsins í háloftunum en hann og félagar hans í íslenska landsliðinu fljúga til Albaníu í dag. Þar mæta þeir heimamönnum í undankeppni EM 2020 á þriðjudaginn.

Gylfi lék allan leikinn þegar Ísland bar sigurorð af Moldóvu, 3-0, í gær. Þetta var þriðji sigur Íslendinga í röð. Íslensku strákarnir eru með tólf stig af 15 mögulegum í H-riðli undankeppninnar.

Gylfi lék sinn 69. landsleik í gær. Í þeim hefur hann skorað 20 mörk. Aðeins Eiður Smári Guðjohnsen (26) og Kolbeinn Sigþórsson (24) hafa skorað fleiri landsliðsmörk en Gylfi.

Miðjumaðurinn sparkvissi lék með Íslandi á EM 2016 og HM 2018. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur skorað á tveimur stórmótum.

Everton sendi Gylfa að sjálfsögðu afmæliskveðju. Félagið sló reyndar tvær flugur í einu höggi því Brasilíumaðurinn Bernard á einnig afmæli í dag.



Gylfi hefur leikið með Everton síðan 2017. Hann lék áður með Reading, Hoffenheim, Tottenham og Swansea City. Gylfi er marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi var valinn Íþróttamaður ársins 2013 og 2016 og hefur alls átta sinnum verið valinn Knattspyrnumaður ársins á Íslandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×