FH stóð uppi sem sigurvegari á Hafnarfjarðarmótinu í handbolta. FH-ingar unnu öruggan sigur á grönnum sínum í Haukum, 21-28, í lokaleik mótsins í dag.
FH vann alla þrjá leiki sína á mótinu. Valur endaði í 2. sæti, Haukar í því þriðja og Afturelding í því fjórða.
Einar Rafn Eiðsson skoraði níu mörk fyrir FH í dag og Ásbjörn Friðriksson átta. Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoraði fjögur mörk fyrir Hauka.
Ásbjörn var valinn besti leikmaður Hafnarfjarðarmótsins og samherji hans, Arnar Freyr Ársælsson, besti varnarmaðurinn.
Í fyrri leik dagsins vann Valur Aftureldingu, 26-30. Mosfellingar voru marki yfir í hálfleik, 14-13.
Arnór Snær Óskarsson og Alexander Örn Júlíusson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Val. Gestur Ólafur Ingvarsson var markahæstur í liði Aftureldingar með sex mörk.
Lið Hafnarfjarðarmótsins var þannig skipað:
Vinstra horn: Arnar Freyr Ársælsson, FH
Vinstri skytta: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, Afturelding
Miðjumaður: Ásbjörn Friðriksson, FH
Hægri skytta: Einar Rafn Eiðsson, FH
Hægra horn: Brynjólfur Snær Brynjólfsson, Haukar
Línumaður: Ýmir Örn Gíslason, Valur
Markvörður: Daníel Freyr Andrésson, Valur
