Sanders og Cardi fóru um víðan völl og ræddu ýmis vandamál sem steðja að bandarískum almenningi. Meðal þess sem bara á góma var skuldastaða bandarískra námsmanna og landlægt lögregluofbeldi í landinu, sem hefur farið hátt í fjölmiðlum á síðustu árum.
Eins ræddu þau sameiginlega aðdáun sína á Franklin D. Roosevelt, 32. forseta Bandaríkjanna, en hann var í embætti frá 1933 og til 1945, eða þegar síðari heimsstyrjöld lauk.
Nokkuð óvenjulegt verður að teljast að forsetaframbjóðandi setjist niður til viðtals með hip-hop stjörnu en Sanders virðist meðvitað vera að reyna að ná til yngri hóps kjósenda. Snemma í þessum mánuði settist Sanders til að mynda niður með grínistanum og sjónvarpsmanninum Joe Rogan í hlaðvarpsþætti hans. Þátturinn er einn sá vinsælasti í Bandaríkjunum, og þá sérstaklega meðal ungs fólks.
Viðtal Cardi B við Bernie Sanders, sem var birt á YouTube-rás Sanders í gær, má sjá hér að neðan.