Handknattleiksamband Íslands var ekki lengi að finna eftirmann Axels Stefánssonar en tilkynnt var í gær að Axel hætti með kvennalandsliðið eftir þriggja ára starf.
Arnar Pétursson tók við íslenska kvennalandsliðinu í dag en hann var kynntur á blaðamannafundi hjá HSÍ í Arion banka.
Arnar gerir tveggja ára samning við Handknattsleikssambandið en fulltrúar HSÍ höfðu fyrst samband við hann á föstudaginn var.
Arnar hefur náð frábærum árangri sem þjálfari karlaliðs ÍBV en hann gerði liðið að Íslandsmeisturum árið 2014 ásamt Gunnari Magnússyni og ÍBV-liðið vann síðan alla þrjá titlana í boði undir stjórn Arnars veturinn 2017 til 2018.
Arnar Pétursson hætti sem þjálfari ÍBV eftir meistaratímabilið 2017-18 og þjálfaði ekki lið á síðustu leiktíð. Hann stimplaði sig hins vegar inn sem sérfræðingur í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport.
Fyrsta verkefni Arnars verður undankeppni EM 2020 sem hefst í haust en þar eru íslensku stelpurnar í riðli með Frakklandi, Króatíu og Tyrklandi. Fyrstu tveir leikirnir fara fram í lok september og eru það útileikur á móti Króatíu og heimaleikur á móti Frakklandi.
Arnar Pétursson tekur við kvennalandsliðinu í handbolta
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið



Svona verður enski boltinn á Stöð 2 Sport
Enski boltinn



„Þeir spila mjög fast og komast upp með það“
Körfubolti



