Skoðun

Fara fíklar í sumarfrí?

Helga Maria Mosty skrifar
Segjum sem svo að þú eða einhver nákominn þér sé fíkill. Að sá aðili hafi farið í fáar eða margar meðferðir. Gefum okkur að þessi aðili hafi verið edrú um nokkurt skeið en falli svo og vilji hjálp til að hætta. Hann sé tilbúinn á sínum eigin forsendum, án aðkomu eða þrýstings frá nokkrum öðrum, að fara í meðferð. Hann sækir um innlögn á sjúkrahúsið Vog og fær þau svör að það sé bið. Biðin sé um 2 mánuðir eftir að komast í afeitrun. Hvað gerir hann ? Ef fíkillinn hefur gífurlegan viljastyrk bíður hann, annað hvort edrú eða ekki, eftir að komast í meðferð. Á meðan á bið stendur er fíklinum bent á að mæta í viðtal á göngudeild hjá Vogi og fyrir það greiðir hann komugjald fyrir hvert skipti. Eru margir fíklar sem eiga við fíkn að stríða tilbúnir að eyða peningum í viðtöl við ráðgjafa meðan þeir bíða eftir að komast í afeitrun ? Kýs fíkillinn kannski að nota peninga sína þ.e.a.s. ef hann á þá til, til greiðslu vegna viðtala við ráðgjafa á meðan á bið stendur og fíkillinn ekki afeitraður eða notar fíkillinn peningana í fíkn sína ?

Meðferð og afeitrun hjá Vogi er að jafnaði um 10 dagar. Að loknum þessum 10 dögum hefur fíkillinn oftast val um að fara í eftirmeðferð sem nú fer fram á Vík og er um 2-4 vikur. En ef fíkillinn er tilbúinn í eftirmeðferð er eins gott að það sé ekki að sumri til. Vík fer nefnilega í sumarfrí og staðurinn er lokaður á meðan. Svo ekki einungis er bið eftir að komast í afeitrun heldur tekur svo við ný bið þar til sumarfríum er lokið. Á meðan á þessari bið stendur þ.e. að Vík (eftirmeðferðin) opni aftur eftir sumarfrí er einnig um samtalsmeðferð að ræða. Fíkillinn mætir á göngudeild 4 sinnum í viku og greiðir að sjálfsögðu aftur fyrir það. Enn og aftur er það spurning hvort fíkillinn sem er búinn að fara í 10 daga afeitrun sé tilbúinn að nota peninga sína þ.e.a.s. ef hann á þá til, til greiðslu fyrir viðtal við ráðgjafa á meðan næsta bið er í gangi ? Hvað ef fíkillinn á engan pening og ekki í nein hús að venda ? Hvar á hann þá að vera á meðan á þessari bið stendur ? Eru ekki miklar líkur á því að fíkillinn falli aftur í sömu gryfju, þá gryfju sem hann kann því miður svo vel ?

Því miður er það staðreynd að biðin sjálf getur reynst fíkli mjög erfið og stundum lífshættuleg. Í sumum tilvikum á fíkillinn ekki í nein hús að venda en stundum hefur fíkillinn húsaskjól og þá oft hjá fjölskyldu sem heldur í þá von og trú að þetta sé skiptið, þetta er skiptið sem fíkillinn nær bata. Þessi bið er ekki einungis erfið fíklinum heldur einnig fjölskyldu fíkilsins.

Því spyr ég; fara fíklar í sumarfrí?

Helga María Mosty þjónustufulltrúi




Skoðun

Sjá meira


×