Sport

Bergrún Ósk heimsmeistari ungmenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir.
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir. vísir/vilhelm
ÍR-ingurinn Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir stóð sig frábærlega á heimsmeistaramóti ungmenna í frjálsum íþróttum fatlaðra sem fór fram í Nottwil í Sviss um Verslunarmannahelgina. Keppt var bæði í flokki 17 ára og yngri og í flokki 20 ára og yngri.

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir fagnaði sigri í tveimur af fjórum greinum sem hún keppti í á mótinu en Bergrún keppir í flokki T/F 37 (hreyfihamlaðir).



Bergrún varð heimsmeistari í langstökki með stökki upp á 4,12 metra og sigraði í spjótkasti í sínum flokki er hún kastaði spjótinu 23,08 metra. Spjótið var ekki verðlaunagrein á mótinu þar sem aðeins tveir keppendur voru skráðir til leiks. Glæsilegur árangur hjá Bergrúnu sem var einnig í 4. sæti í 100 metra hlaupi og 5. sæti í 200 metra hlaupi.

Bergún er að fylgja eftir góðu ári í fyrra þegar hún var valin íþróttakona ársins hjá fötluðum eftir að hafa unnið þrenn verðlaun á Evrópumeistaramótinu. Nú er hún farin að láta til sín taka á heismmeistaramótinu.

Erlingur Ísar Viðarsson frá FH var svo með bætingu í 100 metra hlaupi í flokki T37 er hann kom í mark á tímanum 14,21 sekúndum. Erlingur Ísar varð í 18. sæti í 100 metra hlaupinu og í 20. sæti í 200 metra hlaupi en náði bestum árangri í langstökkinu með því að ná sjöunda sæti.

Hafliði Hafþórsson keppti ekki á mótinu en gekkst í gegnum flokkun á vegum Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×