Innlent

Vaxandi munur á ungmennum í dreifbýli og þéttbýli

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kolfinna Jóhannesdóttir sviðsstjóri greiningarsviðs Menntamálastofnunar segir að hlutfallslega eigi ungmenni í dreifbýli mun erfiðara uppdráttar en ungmenni í þéttbýli og bilið fari vaxandi.
Kolfinna Jóhannesdóttir sviðsstjóri greiningarsviðs Menntamálastofnunar segir að hlutfallslega eigi ungmenni í dreifbýli mun erfiðara uppdráttar en ungmenni í þéttbýli og bilið fari vaxandi.
Hlutfallslega hverfa mun fleiri ungmenni frá námi á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, segir sviðsstjóri hjá Menntamálastofnun. Þá sé hópur þeirra sem er hvorki í námi né starfi hlutfallslega fjölmennari í dreifbýli en í þéttbýli. Strákum og ungmennum að erlendum uppruna er mun hættara við að tilheyra þessum hópum en öðrum.

Í nýrri skýrslu Norrænu fræðastofnunarinnar kemur fram að ungmenni í dreifbýli á Norðurlöndum eiga erfiðara uppdráttar en ungmenni í þéttbýli. Fram kemur að hlutfallslega eru mun fleiri ungmenni hvorki í vinnu né námi í dreifbýli en þéttbýli og að drengir og ungmenni af erlendum uppruna eru í meiri hættu á að tilheyra þessum hópum en aðrir.

Ísland sker sig úr varðandi mun á þéttbýli og dreifbýli en fram kemur að ríflega þriðjungur nema hverfur frá námi í dreifbýli sem er mun hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum. Fimmtungur hverfur frá námi í úthverfum og um fimmtán prósent nema í miðborginni. Sviðsstjóri hjá Menntamálastofnun segir þetta koma heim og saman við sínar rannsóknir.

„Þetta er nákvæmlega sú þróun sem við höfum verið að sjá. Það er alveg þekkt að brotthvarf úr skólum hér á landi er sérstaklega hátt í samanburði við hin Norðurlöndin en það sem við höfum verið að sjá er brotthvarf stráka og ungmenna að erlendum uppruna,“ segir Kolfinna. 

Hún segir að skólakerfið hér á landi sé nokkuð frábrugðið hinum löndunum. Hér sé meiri sveigjanleiki, meiri atvinna fyrir ungt fólk og það fresti því frekar að útskrifast en ungmenni annars staðar. Þá sé Ísland mun strábýlla en hin Norðurlöndin sem geri það að verkum að erfiðara sé að bjóða uppá eins fjölbreytt nám á  dreifbýlum svæðum og annar staðar.

Það sem þurfi hins vegar að hafa sérstakar áhyggjur séu ungmennin sem sé hvorki í vinnu né námi. Mikilvægt sé að finna lausnir fyrir þennan hóp. 

„Þessi svæðisbundni munur er staðreynd og hann fer vaxandi á Íslandi, Norðurlöndum og Evrópu almennt. Hlutfallslega færri tilheyra þó þessum hóp hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum,“ segir Kolfinna.





 

 

 

 

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×