Innlent

Jafnvægi milli þess að gæta almannahagsmuna og tryggja eignarétt

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Forsætisráðherra segir það stórt hagsmunamál almennings að löggjöf verði hert um jarðarkaup auðmanna á Íslandi. Málið snúist um jafnvægi á milli þess að gæta almannahagsmuna og tryggja eignarétt einstaklinga en hún telur eðlilegt að viðskiptafrelsi lúti takmörkunum.

Forsætisráðherra segir að pólitískur vilji sé hér á landi til að herða löggjöf um jarðarkaup auðmanna á Íslandi. Hún segir málefnið hafa verið í töluverðri skoðun en þar sem það heyri undir mörg ráðuneyti sé nálgunin ólík.

„Þessi ráðuneyti hafa ólíka nálgun á þetta en það sem við erum að draga út þeirri vinnu sem við höfum unnið er að það er hægt án þess að trufla skuldbindingar okkar innan EES samningsins að setja takmarkanir á landakaup og jarðarkaup,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Hún segir önnur EES ríki hafa sett slíkar takmarkanir en nálgunin sé ólík milli ríkja. Ýmsar tillögur séu á lofti allt frá búsetuskyldu til forkaupsréttar.

„Það er hægt að skoða einhvers konar ákvæði um heimilisfesti þeirra sem eru að kaupa jarðir, það er hægt að skoða nýtingartakmarkanir þeas hvernig eigi að nýta slíkt land og forkaupsrétt,“ sagði Katrín.

Hvað eignarrétt manna varðar segir hún að málið snúist um jafnvægi milli stjórnarskrárvarinnar eignaréttar og almannahagsmuna.

„Og við verðum að hafa þau leiðarljós samhliða því að við verðum auðvitað að finna jafnvægi þess að gæta almannahagsmuna og tryggja þann eignarrétt sem tryggður er í stjórnarskrá,“ sagði Katrín.

Aðspurð hvort ekki sé varhugavert að grípa svona inn í viðskiptafrelsi segir hún að svo sé ekki.

„Ég held að við grípum inn í viðskiptafrelsi manna á hverjum degi með þeim reglum sem við höfum sett um fjármálakerfið okkar, með þeim reglum sem við setjum um neytendavernd og annað slíkt. Viðskiptafrelsi að sjálfsögðu lýtur sínum takmörkunum eins og annað frelsi,“ sagði Katrín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×