Viðskipti innlent

Marel stefnir á 12 prósent vöxt næstu árin

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Viðburðaríkur fjórðungur að baki hjá Marel
Viðburðaríkur fjórðungur að baki hjá Marel Vísir/EPA
Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður stefnir Marel á 12 prósent meðalvöxt árlega á tímabilinu 2017 til 2026. Marel búi að „góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða“ sem gera ætti fyrirtækinu kleift ráðast í sterka markaðssókn og nýssköpun og þannig ná innri vexti umfram almennan markaðsvöxt, sem áætlað er að verði um 4 til 6 prósent til lengri tíma.

Þetta er meðal þess sem má lesa út úr yfirlýsingum Marels í tengslum við ársfjórðungsuppgjör félagsins, sem leit dagsins ljós í gær. Það bar meðal annars með sér að tekjur Marels hafi numið 327 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi, rúmlega 44 milljörðum króna, sem er 10 prósent hækkun frá sama tímabili í fyrra. Þar að auki jókst rekstrarhagnaður Marels um 15 prósent og 7 prósent aukning varð í mótteknum pöntunum frá fyrra ári.

Það sem af er degi hefur virði bréfa Marels hækkað um 0,75 í Kauphöllinni, en ætla má að rekja megi hækkunina beint til uppgjörsins og fjárfestakynningar sem fram fór í höfuðstöðvum félagsins í morgun.

„Við sjáum sveiflur á mörkuðum þar sem aukning er í pöntunum á stærri verkefnum í Asíu og Kína, á meðan hægst hefur á stærri pöntunum í Evrópu og Norður Ameríku. Á móti kemur góður vöxtur í endurnýjunar- og viðhaldsverkefnum hjá viðskiptavinum okkar í Evrópu og Norður Ameríku,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, í tengslum við uppgjör fjórðungsins - sem hann segir hafa verið viðburðarríkan í sögu félagsins.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Beri þar skemmst að nefna skráningu Marels í Euronext-kauphöllina í Amsterdam og útgáfu 15 prósent nýs hlutafjár. Árni segist þakklátur fyrir hvernig útboðið hafi gengið. „Alls tóku 4.700 fjárfestar þátt í útboðinu en fyrir skráningu félagsins í Euronext Amsterdam voru hluthafar félagsins 2.500 talsins,“ segir Árni. Það muni styðja við næstu skref í framþróun Marels, en vöxtur félagsins verði knúinn áfram af nýsköpun, markaðssókn og ytri vexti.

„Að því sögðu erum við á réttri leið með að ná vaxtarmarkmiðum okkar fyrir árið 2026, sem eru 3 milljarðar evra í tekjur og fyrsta flokks arðsemi. Í samstarfi við viðskiptavini okkar viljum við umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu með áherslu á fæðuöryggi, rekjanleika, sjálfbærni og hagkvæmni,” segir Árni.

Áætlaður vöxtur verði þó líklega ekki línulegur, enda háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni. Því megi reikna með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga „vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna,“ eins og það er orðað.

Þá telur JP Morgan að gengi Marels geti farið upp í 4,7 evrur á næstu 18 mánuðum, sem er um 7 prósentum yfir gengi bréfanna í kauphöllinni í Amsterdam í dag og 27 prósentum yfir útboðsgenginu. Eftir farsæla skráningu sé Marel vel í stakk búið til að styðja undir frekari vöxt með yfirtökum.




Tengdar fréttir

Íslendingar fengu fimm prósent af útboði Marels

Íslenskir fjárfestar fengu aðeins úthlutað í kringum fimm prósent af þeim 47 milljarða króna hlut sem seldur var í nýafstöðnu hlutafjárútboði Marels, samkvæmt heimildum Markaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×