Innlent

Fullyrðir að Bjarni Benediktsson hætti ekki í haust

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Friðjón Friðjónsson
Friðjón Friðjónsson
Miðstjórnarmaður í Sjálfstæðisflokknum segir ummæli fyrrum foringja Sjálfstæðisflokksins um flokkinn vonbrigði. Þá segir hann það af og frá að Bjarni Benediktsson hafi áform um að hætta í haust.

Friðjón R. Friðjónsson, miðstjórnarmaður í Sjálfstæðisflokkum og Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar voru gestir Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi í morgun. Þar ræddu þau um strauma og stefnur á hægri væng stjórnmálanna hérlendis í tengslum við þriðja orkupakkann.

Friðsjón segir þetta ekki í fyrsta sinn sem átök og klofning má sjá í Sjálfstæðisflokknum, sem alltaf hafi staðið slík átök af sér. Þá segir hann ummæli fyrrum foringja Sjálfstæðisflokksins vonbrigði.

„Mér finnst það mjög leitt að gamlir foringjar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið undir þessi sjónarmið og séu komnir þangað því Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf stært sig af því að vera alþjóðasinnaður flokkur sem vill standa í alþjóðasamstarfi,“ sagði Friðjón R. Friðjónsson, miðstjórnarmaður í Sjálfstæðisflokknum.

Hanna segir stöðu Sjálfstæðisflokksins ekki einsdæmi.

„Staðan hér og þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er svolítið í miðri hringiðjunni er ekki einsdæmi. Þetta er að gerast úti um allt í kringum okkur. Fyrir ekkert svo löngu var talað um að frjálslyndið væri dautt en staðreyndin virðist vera sú að þeir straumar sem eru mest undir árás núna er íhaldssemin,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.

Þá segir Friðjón það spuna að Bjarni Benediktsson sé að hætta.

„Ég ætla að fullyrða það að Bjarni Benediktsson sé ekki að hætta í haust sem formaður Sjálfstæðisflokksins eða í pólitík. Það kæmi mér bara gríðarlega á óvart. Hann á enn erindi og það er margt að gera í þessari ríkisstjórn og hann er klárlega ekki að fara að gefast upp fyrir þessum látum og þessum áróðri sem kemur úr þessum ranni,“ sagði Friðjón.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×