Tónlistarmaðurinn bandaríski R.Kelly var handtekinn í Chicago í nótt, grunaður um ýmis kynferðisbrot svo sem mansal og fyrir að hafa barnaklám undir höndum. Kelly, sem er fimmtíu og tveggja ára hefur þegar verið ákærður fyrir fjölda brota sem hann segist saklaus af.
Raunar hefur söngvarinn verið sakaður um kynferðisbrot af og til í um tvo áratugi en mál hans komst aftur í sviðsljósið á dögunum þegar heimildarþættir fóru í sýningu þar sem rætt er við fórnarlömb hans í gegnum tíðina. Kelly hefur neitað ásökununum.
Reuters-fréttastofan segir að rannsóknarlögreglumenn frá New York og fulltrúa heimavarnaráðuneytisins hafi tekið R. Kelly höndum. Búist sé við að hann verði fluttur til New York. Chicago Sun-Times heldur því fram að Kelly eigi yfir höfði sér ákæru í þrettán liðum.
Ekki er ljóst hvort að nýja ákæran tengist þeirri sem hann sagðist saklaus af í Chicago í síðasta mánuði. Þar var hann sakaður um að hafa misnotað stúlkur á aldrinum þrettán til sextán ára.