Fulltrúadeild Bandaríkjaþings greiddi atkvæði um að fordæma ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta í garð þingkvenna Demókrataflokksins. Ummælin lét hann falla í færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann sagði ónafngreindum frjálslyndum þingkonum Demókrataflokksins að fara aftur til síns heima og laga þá „algerlega brotnu og glæpalögðu“ staði.
Augljóst var að hann átti við fjórar nýjar þingkonur demókrata, þær Alexandriu Ocasio-Cortez, Rashidu Tlaib, Ilhan Omar og Ayönnu Pressley. Þrjár þeirra eru fæddar í Bandaríkjunum ein Omar fluttist þangað sem barn frá Sómalíu. Allar eru þær dökkar á hörund.
Sjá einnig: Trump sagður vilja gera Bandaríkin hvít aftur
Þingkonurnar tjáðu sig um ummælin á blaðamannafundi í gær þar sem þær sögðu ummælin vera truflun og tilraun til þess að leiða umræðuna í aðra átt en að þeim málum sem raunverulega skipta máli. Ilhan Omar, ein þingkvennanna, sagði þau bera vott um hvíta þjóðernishyggju.
Demókratar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni en fjórir Repúblikanar greiddu einnig atkvæði með því að fordæma ummælin. Atkvæðagreiðslan fór svo að 240 greiddu atkvæði með því að fordæma ummælin en 187 voru mótfallnir því.
Trump hafði áður biðlað til þingmanna Repúblikanaflokksins og beðið þá um að greiða atkvæði gegn tillögunni, sem er að mestu leyti táknræn yfirlýsing. Hann hefur áður sagt að hann ætli ekki að biðjast afsökunar á ummælunum þar sem margir væru sammála sér og sagði þau jafnframt ekki vera rasísk.
Fulltrúadeildin fordæmir ummæli Trump

Tengdar fréttir

Segja ummæli Trump bera vott um hvíta þjóðernishyggju
Þingkonurnar fjórar sem talið er að Donald Trump hafi beint ummælum sínum að tjáðu sig á blaðamannafundi í kvöld.

Trump biðst ekki afsökunar og segir marga vera sammála sér
Ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um fjórar þingkonur Demókrataflokksins hafa vakið mikla reiði.

Trump sagður vilja gera Bandaríkin hvít aftur
Demókratar gagnrýna Bandaríkjaforseta fyrir rasísk ummæli um þingkonur. Repúblikanar hafa þagað þunnu hljóði.

May og fleiri Evrópuleiðtogar fordæma rasísk ummæli Bandaríkjaforseta
Bandaríkjaforseti tísti um að bandarískar þingkonur ættu að fara frá Bandaríkjunum til meintra heimalanda sinna.