Erlent

Vill að FBI rannsaki FaceApp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Chuck Schumer óttast að rússneskir eigendur smáforritsins FaceApp muni hagnýta persónuupplýsingar notenda.
Chuck Schumer óttast að rússneskir eigendur smáforritsins FaceApp muni hagnýta persónuupplýsingar notenda. Getty/ Mark Wilson
Leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, Chuck Schumer, fer fram á að bandarísk yfirvöld rannsaki smáforritið FaceApp sem tröllríður nú öllum samfélagsmiðlum, og þar á meðal hér á landi. Talið er að reglulegir notendur séu um 80 milljón talsins um víða veröld.

Með FaceApp geta notendur tekið mynd af sér og breytt henni þannig að þeir virðist mun eldri eða yngri. Schumer segist hafa af þessu miklar áhyggjur og óttast að upplýsingarnar sem forritið afli í leiðinni verði notaðar í annarlegum tilgangi og að óvinveitt erlend ríki gætu nýtt sér þær.

Wireless Lab, fyrirtækið sem á og þróar FaceApp, er rússneskt og staðsett í Sankti Pétursborg. Talsmenn þess hafna því alfarið að upplýsingarnar séu geymdar um alla framtíð, þeim sé eytt eftir að myndunum hefur verið breytt. Þá segir fyrirtækið aukinheldur að persónuupplýsingar notenda rati aldrei nokkurn tímann til Rússlands.

Schumer tekur þeim útskýringum með fyrirvara og vill að alríkislögreglan rannsaki málið.

Hann er ekki eini demókratinn sem hefur haft áhyggjuraf smáforritinu. Þannig hefur landsnefnd Demókrataflokksins varað forsetaframbjóðendur, sem sækjast eftir útnefningu demókrata fyrir kosningarnar á næsta ári, við því að nota FaceApp.

„Á þessari stundu er ekki ljóst hverjar öryggisógnirnar eru, en það er þó ljóst að kostirnir sem fylgja því að sniðganga smáforritið eru fleiri en gallarnir,“ er haft eftir yfirmanni öryggismála hjá flokknum á vef Washington Post.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×