Íslenski boltinn

Árlegt fjárframlag Stjörnunnar 130 milljónir

Benedikt Bóas skrifar
Leikmenn meistaraflokks þurfa ekki að borga í sund.
Leikmenn meistaraflokks þurfa ekki að borga í sund. Fréttablaðið/Ernir
Garðabær greiðir Stjörnunni 130 milljónir sem árlegt fjárframlag en bærinn og félagið endurnýjuðu samstarfssamning fyrir skemmstu. Samningurinn var kynntur í bæjarráði á þriðjudag. Félagið skal ráðstafa fjárframlögum til íþróttaskóla, almenns rekstrar og afreksstarfsemi.

Að auki veitir Garðabær félaginu afnot af íþróttamannvirkjum bæjarins að verðmæti 90 milljónir króna. Jafnframt veitir Garðabær félaginu árlegan styrk til greiðslu fasteignagjalda í samræmi við reglur bæjarins um styrki til greiðslu fasteignaskatts. Ekki kemur fram hve hár sá styrkur er.

Leikmenn meistaraflokks Stjörnunnar í öllum íþróttum þurfa ekki að greiða í sund samkvæmt samningnum.

Leikmenn fá úthlutaða miða en markmiðið er að að bæta hvíld og endurheimt leikmanna. Þurfa þeir að nota rafræn skilríki til að framvísa miðunum. Samkvæmt samningnum ætlar félagið að leggja sig fram um að hækka ekki æfingagjöld umfram vísitölu á samningstímabilinu sem er til 2022.

Garðabæjarlistinn sat hjá við afgreiðslu samningsins en hann var samþykktur með fjórum atkvæðum.

Í bókun Garðabæjarlistans segir að hann leggist gegn því að ekki sé dregin fram skýr áhersla á aðgerðir um frekari útfærslur á systkina­afslætti sem og sértækar aðgerðir til að auka tækifæri fatlaðra barna til iðkunar íþrótta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×